Það að heimahöfn varðskipsins Freyju verði á Siglufirði felur í sér mikla framþróun fyrir Landhelgisgæsluna og sjóöryggismál landsins. Skipið er 24 klukkustundum skemur í förum frá Siglufirði til dæmis út fyrir norðausturland en frá Reykjavík. Stefnt er að því að Freyja annist eftirlit og gæslu úti fyrir Norðurlandi og Austurlandi en varðskipið Þór úti fyrir Vesturlandi og Suðurlandi.
Það var sameiginleg ákvörðun Landhelgisgæslu Íslands og dómsmálaráðuneytisins að heimahöfn nýja varðskipsins yrði í öðrum landsfjórðungi en suðvestanlands. Ásgrímur L. Ásgrímsson, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar, segir að skoðaðar hefðu verið nokkrar hafnir úti á landi með tilliti til þess að verða heimahöfn Freyju.
„Í þessari vinnu þurftum við að taka tillit til margra þátta. Einn þeirra var hafnirnar sjálfar. Hve skjólgóðar þær eru og hvernig aðstaðan er. Einnig þurfti að skoða málið með tilliti til fjarlægðar til næsta flugvallar sem nýttist til að koma áhöfnum á staðinn. Það var alltaf ljóst, að fyrst um sinn verða mál með þeim hætti að áhafnir búa annars staðar en þar sem heimahöfn Freyju verður,” segir Ásgrímur.
Löng sigling út Eyjafjörð
Á árum áður bjuggu áhafnir varðskipanna alfarið á suðvesturhorninu en Ásgrímur segir það hafa breyst síðustu árin. Nú býr hluti áhafna á Austfjörðum og Norðurlandi. Hann segir að það hafi gengið einstaklega vel að koma mannskapnum til Reykjavíkur fram að þessu þegar mikið hefur legið við. Það hafi síðast gerst á milli jóla- og nýárs þegar varðskipið Þór þurfti að bregðast skjótt við til að draga Lagarfoss til Reykjavíkur eftir að skipið bilaði 230 sjómílur suðvestur af Garðskaga.
Sums staðar, þar sem hefði komið til greina kom að velja Freyju heimahöfn, eru það mikil umsvif í fiskiskipaútgerð, að ekki hefði reynst raunhæft að fara þá leið nema til kæmu talsverðar hafnarframkvæmdir. Einnig var litið til þess hversu fljótt varðskipið kæmist á miðin frá heimahöfninni.
„Á Akureyri er til að mynda frábær höfn og flugvöllur í næsta nágrenni en á móti kemur að það er 30 sjómílna sigling út Eyjafjörðinn. Það er því tveggja klukkustunda sigling út fjörðinn en úr höfninni á Siglufirði og út fjörðinn er 15 mínútna sigling.”
- Ásgrímur L. Ásgrímsson.
Útgerðarmynstur varðskipanna áður fyrr var með þeim hætti að eitt varðskip sinnti suður- og austursvæði, annað norður- og vestursvæði og Suðurlandi og þegar varðskipin voru þrjú, var eitt þeirra í innilegu. Stefnt er að því að taka upp þetta mynstur á ný en þó þannig að Freyja sinni Norður- og Austurlandi og Þór Vestur- og Suðurlandi. Það sem næst líka fram með þessu þegar fram líða stundir er minni olíueyðsla því ekki verður nauðsynlegt að sigla jafnan til Reykjavíkur.
„Það tekur um 24 klukkustundir að sigla frá Reykjavík til Siglufjarðar. Sé þörf á varðskipinu úti fyrir norðausturlandi, svo dæmi sé tekið, þá er það einum sólarhring fyrr á staðinn. Þessu fylgir að sjálfsögðu stóraukið öryggi sjófarenda,” segir Ásgrímur.
Hann segir að nú hafi verið ákveðið að heimhöfn Freyju verði Siglufjörður en Landhelgisgæslan eigi eftir að skipuleggja framhaldið í smáatriðum til þess að skipið og heimahöfnin nýtist sem best. Ekki hefur komið til tals í tengslum við staðsetningu Freyju á Siglufirði að ein af björgunarþyrlum Landhelgisgæslunnar fái samastað úti á landi. Það mál hefur þó oft verið rætt við önnur tækifæri.
„Það væri ákjósanlegt að þyrla væri staðsett á öðrum stað í landinu með tilliti til viðbragðs. En þyrla þyrfti skýli og viðhaldsþjónustu með tilheyrandi mannskap. Þessu fylgir mikill upphafskostnaður og síðan rekstrarkostnaður. Það er að mörgu leyti þessi kostnaður sem hefur staðið þessu fyrir þrifum.”