Íslenska sjávarútvegssýningin veitti í gær tveimur nemendum við Fisktækniskóla Íslands námsstyrk að upphæð 500 þúsund króna hvorum.

Í fréttatilkynningu segir að í kjölfar Íslensku sjávarútvegssýningarinnar 2014 hafi forsvarsmenn hennar sér grein fyrir mikilvægi þess að fjárfesta í framtíð sjávarútvegarins, og hafi ákveðið í framhaldinu að leggja fram 2 milljónir króna til að styrkja framúrskarandi einstaklinga sem legðu stund á framhaldsnám í gæðastjórnun, fiskirækt eða Marelvinnslutækni við Fisktækniskóla Íslands.

Styrkþegar að þessu sinni voru Jóhanna Sigurlaug Eiríksdóttir, þrítug að aldri frá Sauðárkróki, sem er að sérhæfa sig í gæðastjórnun innan fiskiðnaðarins, og Hallgrímur Jónsson, 22 ára gamall Grindvíkingur, sem sérhæfir sig í Marelvinnslutækni.

Jóhanna og Hallgrímur stunda bæði nám við Fisktækniskóla Íslands og hafa nú þegar lokið tveggja ára grunnnámi í fisktækni. Styrkirnir nýtast þeim á lokaári námsins til að sérhæfa sig á fyrrgreindum sviðum.

Dómnefnd var skipuð þeim Ólafi Jóni Arnbjörnssyni, skólastjóra Fisktækniskóla Íslands, Sigurjóni Elíassyni,  fræðslu- og þróunarstjóra á alþjóðasviði Marel, Guðbergi Rúnarssyni, verkfræðingi og framkvæmdastjóra Samtaka fiskvinnslustöðva, Erni Pálssyni, framkvæmdastjóra Landssambands smábátaeigenda, og  Bjarna Þór Jónssyni, fulltrúa Mercator Media/Íslensku sjávarútvegssýningarinnar á Íslandi.