Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra afhenti í dag styrki til verkefna á sviði orkuskipta í skipum. Verkefnin miða að því að auka notkun innlendra orkugjafa í skipum og draga þar með úr notkun jarðefnaeldsneytis, afla þekkingar á þessu sviði og auka rannsóknir og samstarf. Styrkirnir eru alls að upphæð 30 milljónir króna og verður 20 milljónum til viðbótar úthlutað síðar á árinu.

Varðeldur ehf. hlaut 8 milljóna króna styrk til verkefnis sem miðar að því að breyta lífrænum úrgangi  í hráolíulíki.

GPO efh. fékk 5 milljóna króna styrk til að þróa skilvirkar, hagkvæmar og umhverfisvænar leiðir til að endurvinna plastúrgang (heyrúllu-, heimilis- og iðnaðarplast) í díselolíu og svartolíu.

Véltak ehf. fékk 3 milljóna króna styrk til að fullgera búnað sem dregur úr notkun smurolíu í skipum. Búnaðurinn sem hefur verið hannaður og prófaður getur sparað allt að 50-70% af smurolíunotkun skipa með því að koma í veg fyrir að olían sleppi út í vélarrúm skips.

Norðursigling ehf. fær 14 milljóna króna styrk. Markmiðið er að breyta seglskipi Norðursiglingar þannig að hjálparvélin verði rafknúin frá rafgeymum sem hlaðnir eru í landi og endurhlaðnir með vindorku á sjó í góðum byr. Ljósavél verður til vara. Þannig verður skipið t.d. við hvalaskoðun að fullu knúið á vistvænan hátt.

Sjá nánar HÉR