ff
Bráðabirgðaiðurstöður Hafrannsóknastofnunarinnar, um dreifingu makrílstofnsins í íslenskri lögsögu í sumar, styrkja stöðu Íslendinga í viðræðum við Evrópusambandið og fleiri um veiðar. Þetta segir Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna, í viðtali við fréttamann ríkisútvarspsins í hádeginu.
Friðrik segir að þessar niðurstöður sýni svart á hvítu að makríllinn sé ekki flækingur á Íslandsmiðum. Rannsóknir Hafrannsóknastofnunarinnar styrki því klárlega stöðu Íslands í viðræðum við Evrópusambandið, Norðmenn, Færeyinga og Rússa um veiðar.
„Nú kemur í ljós að það er svipað magn og í fyrra og hittifyrra, það er að segja, væntanlega um 1,1 milljón tonna í íslensku lögsögunni og makríllinn er að þyngjast hérna gríðarlega mikið. Það er talið að hann þyngist um allt að 600 þúsund tonn í íslensku lögsögunni og við höfum verið að veiða núna um tæp 150 þúsund tonn, þannig að þetta skiptir verulegu máli,“ segir Friðrik J. Arngrímsson.
Sjá nánar www.ruv.is