Styrja er einn af verðmætustu fiskum veraldar enda er hinn eini og sanni kavíar búin til úr hrognum styrjunnar. Nú virðist eldi á styrju vera í uppsiglingu í Chile því tekist hefur að finna leið til að láta fiskinn fjölga sér í manngerðu umhverfi eftir 15 ára tilraunir.
Þetta eru talin mikil tímamót bæði vegna þeirra möguleika sem styrjueldi skapar en einnig vegna þess að villt styrja er víða talin í útrýmingarhættu vegna óhóflegra veiða.
Kavíar úr styrjuhrognum kostar 1.000-2.000 dollara kílóið eða jafnvirði 123-246 þúsund íslenskra króna. Það er því eftir miklu að slægjast. Styrjan getur orðið allt að 200 kílóa þung en kavíarframleiðslan byrjar þegar fiskurinn nær 10 kílóum að þyngd. Um eitt kíló af kavíar fæst fyrir hver 10 kíló af styrju, en fiskinn má einnig flaka og selja.
Til eru nokkrar tegundir af styrju. Hvíta styrjan eða kyrrahafsstyrjan, sem Chile-menn hafa unnið að tilraunum með, veiðist úti fyrri strönd Norður-Ameríku.
Styrjan er afar gömul fisktegund og ber útlit hennar það með sér Fundist hafa steingervingar af styrju sem raktir eru allt til daga risaeðlanna á jörðinni.