Of stuttur samningstími, ekki nægjanlega skýr ákvæði um framlengingu samningstíma, tillögur um að allt of stór hluti aflaheimilda verði tekinn framhjá aflahlutdeild til pólitískrar úthlutunar og yfirvofandi ofurskattlagning með lamandi áhrifum á sjávarútvegsfyrirtæki. Þetta eru á meðal þeirra atriða sem Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, gagnrýnir í drögum nýs frumvarps til laga um beytingar á lögum um stjórn fiskveiða á vef samtakanna.
„Mér líst afar illa á þau frumvarpsdrög sem kynnt hafa verið. Tillögurnar gera ráð fyrir að allt of stór hluti aflaheimilda verði tekinn framhjá aflahlutdeild til pólitískra úthlutana, m.a. til svokallaðra strandveiða, byggðakvóta og línuívilnunar. Til viðbótar þeim atriðum sem að framan greinir á að taka 50% aflaaukningar frá þeim, sem hafa tekið á sig skerðingar í þorski, ýsu, ufsa og steinbít þegar ákveðnu viðmiði hefur verið náð. Að hirða aukningu aflamarks af þeim sem hafa tekið á sig skerðingar til að byggja upp stofna er óásættanlegt og algjört stílbrot á þeirri hugsun að ábyrg umgengni um fiskistofnana borgi sig," segir Friðrik.
Hann segir frumvarpsdrögin gera ráð fyrir allt of stuttum samningstíma eða einungis 20 árum og bendir á að á síðasta vetri hafi komið fram frumvarp um styttingu afnotatíma orkufyrirtækja sem nýta vatn og jarðhita annars vegar í 30 ár og hinsvegar í 40 ár. „Það fékk slæmar viðtökur og varð ekki að lögum. Útvegsmenn eiga ríkari rétt en þeir sem nýta vatns- og jarðhitaréttindi í eigu ríkisins enda hafa þeir keypt stærstan hluta aflaheimilda en jafnframt skapað sér og Íslandi rétt með veiðum úr deilistofnum," segir Friðrik.
Þá segir hann að ákvæði um framlengingu nýtingarsamninga séu ekki nægjanlega skýr. „Lengd nýtingarsamninga og ákvæði um framlengingu þeirra hafa mikil áhrif á fjármögnun og lánskjör fyrirtækjanna. Skammur samningstími grefur einnig undan þeirri langtímahugsun sem einkennt hefur íslenskan sjávarútveg. Við þurfum nú að fá mat á því hvort tillögurnar þýða að við þurfum að afskrifa keyptar aflaheimildir að verðmæti 212 milljarðar með tilheyrandi afleiðingum á efnahag fyrirtækjanna," segir Friðrik og bætir við að veiðigjaldið sem sé grundvallaratriði, sé skilið eftir óleyst. „Þær hugmyndir sem kynntar hafa verið um breytingar á lögum um veiðigjald gera ráð fyrir ofurskattlagningu með tilheyrandi lamandi áhrifum á atvinnugreinina."
Friðrik segir að í frumvarpsdrögunum séu ákvæði sem miði að því að ákveðið fyrirtæki verði brotið upp og eins að ákveðnum fyrirtækjum verði gert að selja frá sér aflaheimildir. „Fjölmörg önnur atriði eru í drögunum sem mér líst illa á, t.d. ákvæði um svokallað Kvótaþing, óskýr og matskennd ákvæði um ákvörðun aflahlutdeildar, ákvæði um takmörkun á framsali aflahlutdeildar og aflamarks og mikið framsal á valdi til ráðherra sem full ástæða er til að gjalda varhug við," segir Friðrik J. Arngrímsson á vef LÍÚ.