Vel hefur gengið á síldveiðum skammt út af Austurlandi undanfarnar vikur. Uppsjávarskip Eskju, Jón Kjartansson SU og Aðalsteinn Jónsson SU, lönduðu á Eskifirði í vikunni.
„Það hefur gengið bara ljómandi vel á síldinni, stutt að fara og góð veiði. Hún hefur verið mjög mikið að sjást suma daga, en mismikið samt,“ segir Grétar Rögnvarsson, skipstjóri á Jóni Kjartanssyni SU 111.
Hann var að klára að landa þegar Fiskifréttir náðu tali af honum á þriðjudag. Skipið kom til hafnar í Eskifirði með 640 tonn af síld stuttu fyrir hádegi á mánudag. Sólarhring síðar, þegar dælingu úr skipinu var að ljúka, kom Aðalsteinn Jónsson SU einnig til hafnar með síld eftir vel heppnaða veiðiferð.
„Það tekur sólarhring að vinna þennan farm. Svo er Aðalsteinn að koma núna í kjölfarið á okkur,“ segir Grétar.
Nóg hefur því verið að gera í vinnslunni, og þannig hefur það verið í sumar. Vel gekk á makrílnum líka þannig að hvert skipið á fætur öðru hefur landað þar uppsjávarfiski. Uppsjávarvinnsla Eskju er hátæknivædd, tekin í notkun fyrir fjórum árum og er vinnslan ein sú fullkomnasta sem þekkist með vinnslugetu upp á 900 tonn á sólarhring.
„Þetta hefur verið fín síld,“ segir Grétar og segir að ekkert af henni fari í bræðslu. „Þetta er allt unnið í frystihúsinu nema bara afskurðurinn og hausarnir, eftir því hvað þeir eru vinna hana.“
Stuttir túrar
Túrarnir eru stuttir og togin ekki nema þrjú til fjögur.
„Þau voru fjögur núna en þrjú í túrnum á undan, og ekkert löng tog. Það hefur gengið ágætlega að ná þessu. Hún hefur verið svolítið botnlæg en kemur svo upp á nóttunni alveg upp undir yfirborð. Þá þurfum við að vera með trollið alveg uppi, en annars niður við botn yfir daginn.“
Hann segir að nú séu bara tveir túrar eftir, þá sé síldarkvótinn búinn en síðan verði haldið á kolmunna í nóvember.
„Við erum búnir að fara fimm túra núna í rykk. Þetta er svona 4-5 tíma stím yfirleitt, norður á Héraðsflóadýpi. Stysti túrinn fór niður í 36 tíma, held ég, frá því við fórum og komum í höfn aftur. Það hefur verið stutt að fara og þægilegt.“
Uppsjávarflotinn hefur verið á sömu slóðum undanfarið.
„Jú, það eru allir komnir á síld sem eiga síldarkvóta og alltaf nokkrir á miðunum í einu, en margir að landa og sigla.“
Veðrið hefur síðan versnað töluvert núna í vikunni.
„Það er búið að vera mjög gott þangað til núna í síðasta túr. Það var leiðindaveður í síðasta túr og það er leiðindaveður núna og spáir ekkert sérstaklega vel næstu daga, einhverjar umhleypingar í tíðinni.“
Nú eru skipin í höfn og bíða þess að veðrið skáni.
„Það verður ekkert farið út fyrr en á föstudagskvöld eða laugardag. Það á að landa næsta mánudag, og gefa þá frí í frystihúsinu um helgina.“
Vilhelm landaði í Noregi
Norðmenn hafa einnig verið að síldveiðum og var alls 5300 tonnum landað í Noregi um helgina, þar af landaði Samherjaskipið Vilhelm Þorsteinsson EA 1100 tonnum í bænum Bud, sem er miðja vegu milli Bergen og Trondheim. Þetta er í annað sinn sem Vilhelm landar síld í Noregi nú í haust, því í byrjun síðustu viku landaði hann 1360 tonnum í Uthaug.
Kristofer Reiten, framkvæmdastjóri vinnslustöðvarinnar Vikomar í Bud, fagnar aflanum sem áhöfnin á Vilhelm Þorsteinssyni veiddi út af Austurlandi. Rætt er við hann í Fiskeribladet, þar sem hann segir síldina frá Íslandi vera stærri og betri en norsku skipin eru að fá á norskum miðum. Hún er nærri 400 grömm, átulaus og um hundrað grömmum stærri en síldin sem norsku bátarnir eru að koma með.
Hann segir það ekkert vandamál að taka við síld frá íslenskum skipum, enda þótt norskir bátar megi ekki landa á Íslandi.
„Það er pólitík sem aðrir en við þurfa að fást við. Við störfum við að þjóna markaðnum,“ segir Reiten í Fiskeribladet.