Ísfisktogarinn Sturlaugur H. Böðvarsson AK kom nýlega til hafnar í Reykjavík með tæplega 130 tonna afla sem fékkst í fjögurra daga veiðiferð á Vestfjarðamið. Þetta var fyrsta veiðiferð skipsins með Dynex togtaugar frá Hampiðjunni í stað hefðbundinna togvíra og að sögn Eiríks Jónssonar skipstjóra lofar frumraunin góðu.

,,Það er erfitt að setja einhverja mælistiku á reynsluna eftir aðeins einn túr en það komu engin vandamál upp. Helsti munurinn, sem ég sé, er að það er mun auðveldara að stjórna toghlerunum með því að nota þessar togtaugar í stað togvíra. Þeir bregðast strax við og ,,skvera“ betur en áður. Við erum með flottrollshlera á botntrollinu og það er greinilegt að við náum meira bili á milli hlera en áður,“ segir Eiríkur.

Guðmundur Gunnarsson, þróunarstjóri Hampiðjunnar,segir að fyrirtækið líti á þetta sem ákveðin tímamót. "Sturlaugur H. Böðvarsson AK er fyrsti ísfisktogarinn þar sem hefðbundnum stálvírum er skipt út fyrir Dynex togtaugar. Árangurinn er uppörvandi en kemur okkur ekki sérstaklega á óvart. Eina togskipið í íslenska flotanum, sem notað hefur Dynex togtaugar fram að þessu á botntrollsveiðum, er Vestmannaey VE en þar um borð hafa taugarnar verið notaðar með framúrskarandi árangri allt frá árinu 2007,“ segir Guðmundur.

Sjá nánar á vef Hampiðjunnar.