Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), segir að sjálfbærni í sjávarútvegi sé langhlaup og jafnvægislist. Kvótakerfið hafi engan veginn verið fullkomið framan af.
„Þetta hefur verið langt ferðalag og það hefur að sjálfsögðu verið sársaukafullt. Það þurfti að draga verulega úr veiðinni, og því miður tókst okkur ekkert sérstaklega vel til.“
Þetta sagði hún á
opnum fundi sem samtökin efndu til
í Reykjavík í lok síðustu viku.
Fundurinn í Reykjavík var sá síðasti í röð sams konar funda sem efnt var til víða um land í marsmánuði undir yfirskriftinni Það veltur margt á íslenskum sjávarútvegi. Með þessu fundarhaldi vildi SFS vekja athygli á þeim margvíslegu áhrifum sem sjávarútvegur hefur á samfélagið allt, einstaklinga jafnt sem fyrirtæki um land allt.
Hún sagði þættina um Verbúðina raunar hafa „hjálpað til við að rifja upp ástæður þess að farið var í þessa vegferð. Sitt sýnist hverjum um það hvort að sögulega hafi það nú allt verið rétt. Góðir þættir engu að síður.“
Landshlutarnir
Hún rakti síðan í grófum dráttum sögu sjávarútvegsins frá því kvótakerfið var fyrst tekið upp á árunum 1983-84 og til dagsins í dag.
„Afkoman í sjávarútvegi var nú ekkert kræsin langt inn í 21. öldina. Þetta var dansað öðru hvoru megin við núllið.“
Þetta að breytast, eins og oft hefur verið rakið, þegar framsal var heimilað árið 1990 og síðan í kjölfar bankahrunsins þegar krónan hrundi. Það hafi hjálpað útflutningsatvinnuvegunum og ekki síst sjávarútvegurinn að „koma sér upp á lappirnar og blessunarlega hefur heilt yfir í sjávarútvegi verið tiltölulega góð ár í sjávarútvegi síðan þá og til dagsins í dag.“
Breytingarnar hafi komið misjafnlega niður á landshlutum, en þegar þróunin er skoðuð til dagsins í dag hafi landshlutarnir í reynd haldið sínu svipuðu þótt innan þeirra komi einstaka svæði misvel út.
„Auðvitað er ekki lítið úr því gert að Vestfirðir hafa farið töluvert niður frá því framsalið var heimilað,“ sagði hún.
Kapphlaupið um fiskinn
Hlutdeild Vestfjarða var um 14% við upphaf kvótakerfis en var komin niður í 9% árið 2019. Hún segir að hlutdeild þeirra hafi strax á níunda áratugnum byrjað að lækka hratt og rekur það raunar að stórum hluta til þess að menn hafi til að byrja með haft val um sóknardagakerfi og aflamarkskerfi.
„Útvegurinn var heilt yfir að mörgu leyti á móti aflamarkskerfinu þegar það var fyrst sett á. Á tímabilinu 83/84 og til 90 þá völdu flestar útgerðir á Vestfjörðum að vera í sóknardagakerfi. Þegar þú ert næstur miðunum þá ertu fremstur í kapphlaupinu um fiskinn.“
Síðan gerist það 1990 að allir eru þvingaðir til að fara inn í aflamarkskerfi og það bitnaði að vissu leyti á Vestfjörðum. Þeir báru skarðan hlut frá borði.
„Þannig að það eru svona skýringar á þesssu líka. Oft eru kannski vissar staðhæfingar úr lausu lofti gripnar hvað þetta varðar.“
Hún kom sérstaklega inn á sjálfbærnihugtakið, og sagði nauðsynlegt að fá staðfestingar á því að hinum þremur meginþáttum sjálfbærni sé sinnt. Nefnilega umhverfisþættinum, efnahagsþættinum og samfélagsþættinum.
„Stundum finnst manni aðeins rofin þessi tengsl þessara þriggja þátta í umræðunni, að samfélagslegi þátturinn það sé talað um eins og hann sé sjálfstæður þáttur í þessu, og jafnvel eins og það sé á ábyrgð einnar atvinnugreinar að treysta byggð í landinu. Það er að sjálfsögðu ekki þannig. Þetta er þannig að ef okkur tekst að hlúa að hinum umhverfislega og efnahagslega þætti þá tryggjum við atvinnu og byggð í landinu. Þannig að þessir þættir eru að sjálfsögðu tengdir órofa böndum.“
Nýtt endurvinnslukerfi
Hildur Hauksdóttir, sérfræðingur SFS í umhverfismálum, ræddi frekar um samfélagsábyrgð, gagnsæi og sjálfbæra nýtingu.
„Kaupendur, neytendur, samfélagið fjárfestar, og svo má lengi telja, vilja bara vita að fyrirtæki séu að haga sér með forsvaranlegum hætti. Og er það ekki bara eðlileg krafa?“
Hún nefndi til sögunnar Samfélagsstefnu sjávarútvegs sem birt var árið 2020, og svo kynnti hún nýtt fyrirkomulag á endurvinnslu veiðarfæra sem unnið hafi verið að undanfarin ár.
Nýja skilakerfið sé samstarf útgerða og veiðarfæragerða og gangi út á það að veiðarfærum sé skilað á mótttökustöð sem nú er að finna víða um land.
Allir sem nota veiðarfæri megi nýta þetta kerfi, og þá skipti ekki máli hvort viðkomandi sé félagsmaður í SFS eða hafi keypt veiðarfærin hjá þeim veiðarfæragerðum sem taka þátt í verkefninu.