Bátasmiðjan Seigla hefur hafið smíði á stærsta plastfiskibáti sem smíðaður hefur verið á Íslandi, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum. Um er að ræða þriggja þilfara bát, lengd er 15 metrar, mesta breidd er 5,7 metrar og stærð nálægt 50 brúttótonn. Áætlaður kostnaður með öllum búnaði er um 200 milljónir króna.

Að sögn Sverris Bergssonar hjá Seiglu er báturinn hannaður og smíðaður fyrir kaupanda í Noregi og verður útbúinn til línuveiða með beitningarvélakerfi. Jafnframt hefur verið teiknuð útfærsla á þessari bátsgerð fyrir togveiðar. Vonast er til að báturinn verði fullgerður á miðju þessu ári.