Ísfisktogarinn Gullver NS kom til heimahafnar á Seyðisfirði í gær að aflokinni veiðiferð. Aflinn var 106 tonn og blandaður en mest var af ýsu og karfa.

Þetta kemur fram ávef Síldarvinnslunnarþar sem haft er eftir Þórhalli Jónssyni skipstjóra að túrinn hafi gengið vel að því undanskildu að erfitt hafi verið að ná karfanum.

„Við veiddum allvíða og vorum í Hornafjarðardýpinu, Berufjarðarálnum, á Papagrunni og Stokksnesgrunni og almennt fiskaðist vel. Það var hins vegar ströggl að fá karfa, hvorki gullkarfi né djúpkarfi virðist halda sig í miklum mæli hér austurfrá,“ er haft eftir Þórhalli.

Áfram segir að vef Síldarvinnslunnar að nú sé Gullver kominn í hálfs mánaðar stopp og haldi ekki á ný til veiða fyrr en 9. ágúst. Skipið fari síðan í slipp í lok ágúst.

Einnig segir frá því að vinnsla í frystihúsi Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði hafi legið niðri frá því í byrjun júlí og hefjist ekki aftur fyrr en 14. ágúst. Starfsfólkið mun þannig fá sumarfrí í einn og hálfan mánuð.