Ef laxinn í sushi-réttinum þínu lyktar illa gæti ástæðan verið sú að fiskurinn hafi verið stressaður í lifanda lífi. Samkvæmt nýrri rannsókn frá Nofima, norsku rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, lyktar stressaður lax ekki aðeins illa og bragðast verr heldur geymist hann heldur ekki nógu vel.

Við rannsóknina var laxinum skipt í þrjá hópa. Laxinn í fyrsta hópnum var meðhöndlaður eins vel og frekast var kostur. Hann var hafður í kvíum þar sem rúmt var um hvern fisk. Í öðrum hópnum voru laxar sem voru settir margir saman í litla kví 20 mínútum fyrir slátrun. Laxar í þriðja hópnum vörðu svo síðustu 20 klukkustundum ævi sinnar í miklum þrengslum innan um fjölda annarra fiska.

Það kom rannsakendum kannski mest á óvart hvað óæskileg lykt kom fljótt í ljós af fiski sem hafði búið við langvinnt stress. Þá leiddu niðurstöðurnar í ljós að neikvæð áhrif lyktarinnar kom verst niður á hráum fiski og þar með fiskréttum eins og sushi. Lyktin kom ekki eins mikið að sök þegar laxinn var soðinn.