Strandveiðar munu stöðvast eftir daginn í dag nema stjórnvöld bæti við þann 11.032 tonna þorskkvóta sem er alveg að klárast.
Kjartan Páll Sveinsson, formaður Strandveiðifélags Íslands, segist enn halda í vonina þótt Alþingi hafi ekki náð að afgreiða frumvarp Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra sem tryggja átti strandveiðimönnum 48 veiðidaga í sumar í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar.
„Ráðherra hefur til lok dags að bæta einhverju við, ef hún ætlar að gera það. Við erum ekki búin að gefa upp alla von,“ segir Kjartan.
Verður aldrei fyrirgefið
„Það yrðu vitanlega mikil vonbrigði ef þetta reyndist síðasti dagurinn en skuldinni yrði alfarið skellt á stjórnarandstöðuna. Þau skulu ekki halda að við ætlum að fara að kenna ríkisstjórninni um þetta. Stjórnarandstaðan á þetta alveg hundrað prósent. Þau kæfðu þetta í málþófi og ef að þeim hefur tekist ætlunarverk sitt þá verður þeim aldrei fyrirgefið. Ég er bálreiður út í þau yfir þessu,“ segir Kjartan sem kveðst telja örugg að aðrir strandveiðimenn líti málið sömu augum.
„Það sjá þetta allir, þetta er svo gegnsætt. Allir sem ég tala við eru með það á hreinu að þetta er stjórnarandstaðan sem á heiðurinn af þessu,“ segir formaður Strandveiðifélags Íslands.
Félagsmálaráðherra boðaði framhald strandveiða
Þess má geta að einn af oddvitum ríkisstjórnarinnar, Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, sagði í myndbandi á samfélagsmiðlum eftir að störfum Alþingis lauk á mánudag að strandveiðar myndu halda áfram.
„Ég vil sérstaklega segja það við strandveiðimennina okkar, þið eruð ekkert að fara með flotann í land í þessari viku, það verður ekki svo. Við erum búin að gera okkar besta og ég þakka þeim sem komu hér á pallana og upplifðu í rauninni það ofbeldi sem við höfum mátt sæta hér í þingsalnum og sáuð það með með eigin augum og heyrðuð það með eigin eyrum hvers lags ástand var hér í fallega þingsalnum okkar. En koma tímar, koma ráð,“ sagði Inga Sæland í ávarpi sínu.