Norges Kystfiskarlag, samtök strandveiðimanna í Noregi, hafa óskað eftir því við norska sjávarútvegsráðherrann að hann stöðvi loðnuveiðar í Barentshafi. Samtökin óttast að loðnustofninn hrynji að öðrum kosti.

Eins og fram hefur komið í fréttum hafa loðnuveiðar Norðmanna í Barentshafi gengið illa fram að þessu, tiltölulega lítið er að sjá af loðnu og fiskurinn smár. Norges Kystfiskarlag bendir á að Alþjóðahafrannsóknaráðið hafi varað við því að veiðar yrðu leyfðar á árinu 2015 vegna þess hve stofninn mældist lítill. Eigi að síður hafi verið gefinn út tiltölulega stór kvóti á þeirri forsendu að líkur væru á að ekki hefði tekist að ná að mæla allan stofninn vegna þess að hluti hans hefði verið undir ís langt norður í hafi.

„Þetta var brot á varúðarreglunni enda hefur komið í ljós að það var ekki afgerandi mikið af loðnu undir ísnum,“ segir í ályktun samtakanna. Þau segja allt benda til þess að  óforsvaranlegt sé að halda loðnuveiðunum áfram enda sé þá veruleg hætta á því að stofninn hrynji.

Kvóti norskra loðnuskipa á þessari vertíð er 72.000 tonn en fram til þessa hafa aðeins veiðst um 18.000 tonn, að því er fram kemur á vef norska síldarsölusamtalsins. Um 20 norsk skip hafa tekið þátt í veiðunum til þessa.