Friðbjörn Ásbjörnsson, framkvæmdastjóri Fisk Seafood á Sauðárkróki, segir það svíða mikið þegar vísindalegar niðurstöður séu að engu hafðar og „tiltekin veiðarfæri tortryggð og töluð niður árum saman með dylgjum og jafnvel fullyrðingum sem ganga þvert á það sem sannara reynist“.

Þetta kemur fram í grein sem Friðbjörn skrifar í Feyki og lesa má í heild á vef héraðsfréttamiðilsins.

Í síðustu viku sögðu Fiskifréttir frá gagnrýni Drangeyjar – smábátafélags Skagafjarðar og formanns félagsins á dragnótaveiðar í innanverðum Skagafirði. Byggðarráð Skagafjarðar tók fyrir erindi smábátafélagsins, minnti á það í bókun að sveitarfélagið hefði harðlega mótmælt afnámi friðunar svæðisins árið 2017 og hvatti atvinnuvegaráðherra til að skoða málið og opna fyrir faglega og gagnsæja umræðu um framtíðarskipulag veiða með dragnót við Íslandsstrendur, með áherslu á verndun vistkerfa og sjálfbæra nýtingu.

Mikilvægt að láta ekki blekkjast

Ekki náðist tal af Friðbirni en í grein sinni í Feyki kveðst hann hafa áhyggjur af að gagnrýnin á dragnótaveiðarnar grundvallist ekki á þekkingarleysi heldur sérhagsmunum þeirra sem hæst hafi.

„Þar hef ég auðvitað forystumenn strandveiðisjómanna sérstaklega í huga. Ég tel þá tala gegn betri vitund og það er að minnsta kosti afar mikilvægt að stjórnendur sveitarfélagsins, rétt eins og þeir sem fara með ákvörðunarvald fyrir sjávarútveginn í heild sinni, láti ekki blekkjast,“ skrifar Friðbjörn. Mikilvægt sé að koma áliti vísindasamfélagsins um dragnótaveiðar á framfæri.

Lína og net skaði meira

„Í fyrsta lagi vil ég nefna að vinnunefndarhópur Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) lýsti því áliti sínu, sem Fiskifréttir greindu frá árið 2011, að handfæraveiðar og dragnótaveiðar ætti að leggja að jöfnu hvað umhverfisáhrif varðar. Aðeins flotvarpa, hringnót og gildrur skaði lífríkið minna. Bæði net og lína eru hins vegar talin hafa mun meiri umhverfisleg áhrif. Botnvarpa og plógur hafi hins vegar mest áhrif á lífríki sjávar,“ segir Friðbjörn.

Einnig vísar Friðbjörn til rannsóknar á vegum Hafrannsóknastofnunar um áhrif dragnótaveiða á lífríki botns í innanverðum Skagafirði. „Þær niðurstöður sem fengust í þessari rannsókn benda ekki til að dragnótin hafi áhrif á botndýralíf í Skagafirði,“ er meðal þess sem hann vitnar til úr niðurstöðunum.

Kjaftfullur af ýsu sem ekki lítur við krókum handfærabátanna

„Til viðbótar vil ég benda á að fjörðurinn okkar er kjaftfullur af ýsu sem ekki lítur við krókum handfærabátanna en færir okkur mikil verðmæti í gegnum dragnótina. Það væri í mínum huga mikið ábyrgðarleysi að nýta ekki þessa auðlind og ætti að minnsta kosti ekkert skylt við þá sjálfbæru nýtingu sem okkur verður svo tíðrætt um,“ skrifar Friðbjörn og bendir á dragnótin skili margfalt fleiri tonnum af ýsu að landi heldur en strandveiðiflotinn þorski með tilheyrandi verðmætasköpun.

Friðbjörn segist geta tekið heilshugar undir hvatningu byggðarráðs um vísindalegar nálganir og fagmennsku. Vonandi hrapi atvinnuvegaráðherra ekki að niðurstöðum án undangenginnar faglegrar og gagnsærrar umræðu um umhverfisáhrif dragnótaveiðanna. „Kannski hefði byggðarráðið sjálft mátt hafa það sjálfsagða vinnulag í huga áður en það sendi stjórnvöldum þetta erindi,“ skrifar framkvæmdastjórinn.

Hefðu kannski átt að lesa

Einar Eðvald Einarsson, varaformaður byggðarráðs Skagafjarðar.
Einar Eðvald Einarsson, varaformaður byggðarráðs Skagafjarðar.

Einar Eðvald Einarsson, varaformaður byggðarráðs Skagafjarðar, segir í samtali við Fiskifréttir að ráðið hafi í bókun sinni ekki tekið afstöðu í málinu. Jafnvel þótt þar sé vísað til mótmæli fyrri sveitarstjórnarinnar um afnám friðunarinnar í innanverðum Skagafirði lýsi það ekki endilega skoðun sveitarstjórnarmanna í dag.

„Við viljum einfaldlega nálgast málið á faglegum forsendum og á rannsóknum á hver áhrifin af dragnótaveiðum raunverulega eru. Friðbjörn er að gagnrýna okkur fyrir að hafa ekki kynnt okkur þær rannsóknir sem búið er að gera og það er kannski alveg rétt hjá honum, við hefðum alveg getað lesið þær áður en við bókuðum.“