Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur birt reglugerð um strandveiðar fyrir næsta sumar. Engar efnislegar breytingar hafa verið gerðar frá reglugerð síðasta árs, að undanskildu því að nú má stunda veiðarnar á almennum frídögum. Þar með verður hægt að halda til veiða á uppstigningardag, öðrum í hvítasunnu, 17. júní og frídegi verslunarmanna, sem til þessa hefur ekki verið heimilt.

Landssamband smábátaveiðimanna skýrði frá því í vikunni að í ráðuneytinu sé unnið að gerð frumvarps um breytingar á strandveiðiákvæði laga um stjórn fiskveiða.