Strandveiðum á svæði A lýkur í dag, 12. ágúst. Alls hafa 239 bátar stundað veiðar á svæðinu sem er 11 bátum færra en í fyrra, að því er fram kemu á vef Landssambands smábátaeigenda. Heildarafli strandveiðibáta á yfirstandandi tímabili stendur nú í 8.087 tonnum.
Þegar aflatölur eftir gærdaginn voru skoðaðar eru 125 tonn óveidd. Sjómenn á svæðinu telja að bæta þurfi við degi svo allur aflinn náist, þar sem fáir bátar hafa komist á sjó vegna brælu.
Heildarfjöldi veiðidaga á svæði A voru þetta árið aðeins 28. Sjö dagar í maí og júní, 9 í júlí og 5 dagar nú í ágúst.
Afli á svæðinu hefur verið góður í sumar og er gremjulegt að ekki skuli vera gert ráð fyrir meiru til skiptanna. LS gerði kröfu um að viðmiðun yrði aukin m.t.t. til þeirrar aukningar sem verið hefur í veiðiheimildum í þorski og ufsa. Þannig yrði ný viðmiðun 10.194 tonn í stað 8.600 tonna sem nú er, eða 18,6% aukning, að því er segir á vef LS.