Þrátt fyrir afar slæma tíð hafa strandveiðar skilað 2.060 tonna afla frá því þær hófust 4. maí. Eins og sl. sumur er mest þátttaka í veiðunum á svæði A (Arnarstapi - Súðavík), þar hafa 206 bátar hafið veiðar. Þetta kemur fram á vef LS.
Alls hafa 496 bátar verið á strandveiðum og hafa þeir farið í alls 3.780 róðra. Meðaltalsafli í róðri er 545 kg.
Í maí voru dagatakmarkanir aðeins á svæði A, en þar mátti róa 9 daga af þeim 14 sem í boði voru. Að loknum 6. degi strandveiða í júní hafa strandveiðar því staðið yfir í 75 daga og er afli á hvern dag yfir öll svæðin að meðaltali 129 tonn.
Það sem af er júní er búið að nýta 31% heimilda mánaðarins á svæði A, en á öðrum svæðum eru nægar veiðiheimildir eftir.
Sjá töflu um gang veiðanna á vef LS.