„Ég ber gríðarlega virðingu fyrir þessu verkefni. Í þessu ráðuneyti eru náttúrlega grunnatvinnuvegir þjóðarinnar sem skipta samfélagið svo miklu máli, ekki aðeins í efnahagslegu tilliti heldur líka í menningarlegu tilliti,“ segir Hanna Katrín Friðriksson, nýr atvinnuvegaráðherra.
Áform ríkisstjórnarinnar um að tryggja 48 daga í strandveiðum mæta harðri gagnrýni frá fulltrúum stórútgerðarinnar eins og Fiskifréttir hafa greint frá. Segja þeir strandveiðar óhagkvæmar.
„Þetta markmið í stjórnarsáttmálanum um að tryggja 48 daga væri auðvitað ekki sett svona skýrt fram nema af því að við teljum okkur hafa fullvissu fyrir því að því sé hægt að ná á þann hátt að það sé af hinu góða,“ segir Hanna Katrín. Strandveiðar skipti máli fyrir smærri byggðarlög.
Fært á milli flokka
„Strandveiðar glæða hafnirnar lífi og það er ákall eftir því að svona sjónarmið séu tekin með í reikninginn þegar er verið að búa til rammann um sjávarútveginn eða fiskveiðar í heild. Það breytir því ekki að þetta er flókin útfærsla þar sem við erum að horfa til hvernig hægt er að færa til á milli flokka,“ segir ráðherra. Hún hafi fundað með ráðuneytisfólki og sé að fara að hitta fulltrúa hagsmunaaðila í sjávarútvegi. „Málið er að þetta er það sem vilji stendur til að gera og það þarf að vinna þetta hratt og vel.“
Hanna Katrín kveðst heyra stóryrtar yfirlýsingar á báða bóga. „Sannleikurinn er sennilega einhvers staðar þar á milli. Ég þarf að gefa mér tíma til að vinna þetta vel en ég veit líka að klukkan tifar af því að það styttist í sumarið og þarna er eindreginn vilji ríkisstjórnarinnar að fara í þetta mál,“ segir hún. Um sé að ræða verkefni sem hún taki fyrst á við af mörgum mikilvægum málum. „Ég held að ég geti alveg sagt að forgangsröðunin er þannig.
Heimspekileg umræða um réttlæti
Á vef Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri samtakanna, að ekki sé til hlutlægt gilt svar við því hvað sé „réttlátt auðlindagjald í sjávarútvegi“ eins og ríkisstjórnin segi vera markmiðið.
„Ef til vill er þetta fyrst og fremst heimspekileg umræða um það hvað sé réttlát dreifing á arðinum af þessari atvinnugrein sem og öðrum sem hvíla fyrst og fremst á nýtingu á náttúruauðlindum. Þannig að ég ætla sannarlega ekki að gera lítið úr því að menn kalli eftir skýringum á því,“ segir Hanna Katrín um athugasemdir Heiðrúnar.
Traust byggi á gegnsæi og skýrleika
„Hugmyndin er alls ekki að fara í einhverja kollhnísa með fiskveiðistjórnunarkerfið, þetta snýst um hvernig við reiknum út auðlindagjöldin. Ég heyri það hjá forsvarsfólki ríkisstjórnarinnar að þær tillögur verði kynntar fljótlega,“ segir ráðherra. Markmiðið sé að meira renni í ríkissjóð frá þessari atvinnugrein.
„Leið að því markmiði er að auka skýrleika og gegnsæi reglnanna,“ segir Hanna Katrín. Það auki líkur á samstöðu og trausti á því um sé að ræða réttlátar auðlindagreiðslur. Ljóst sé að ef auðlindagjöld verði svo há að útgerðin geti ekki haldið áfram eðlilegri þróun og viðhaldið sjálfri sér sé gengið of langt. „Það er ekki þangað sem á að fara. Það held ég að við getum öll verið sammála um.“