Laxeldi í sjókvíum hefur verið umdeilt vegna hættu á erfðablöndun og ýmsum vandkvæðum er snúa að því að tryggja fiskinum nægilega góðan aðbúnað. Kröfur hafa komið fram um að laxeldi ætti hér við land frekar að stunda á landi en í opnum sjókvíum, að minnsta kosti meðan notast er við frjóan lax.

Þeir Ingólfur Snorrason og Arnar Freyr Jónsson eru sammála um að landeldi hafi ýmsa kosti umfram sjóeldi, en geti þó varla nokkurn tímann náð sömu stærðum og sjóeldið býður upp á. Ingólfur segir þó kosti landeldis ávallt hljóta að vega þyngra en rekstarhagkvæmni sjóeldisins.

Á ráðstefnu um strandbúnað sem haldin var á Grand Hótel Reykjavík í mars bar Arnar Freyr saman kosti og galla sjóeldis og landeldis. Hann er framkvæmdastjóri fiskeldisstöðvar Samherja á Núpsmýri í Öxarfirði, þar sem laxeldi er stundað á landi í kerum og stefnt að því að stækka framleiðsluna úr 1.600 tonnum upp í 3.000 tonn.

Í erindi sínu sagði Arnar Freyr landeldinu vera takmörk sett, aðstæður bjóði einfaldlega ekki upp á að það verði stundað í mjög stórum stíl hér á landi.

„Það er útilokað að byggja laxeldi eingöngu upp á landi,“ var niðurstaða erindis hans. Ísland standi að vísu vel að vígi í samanburði við önnur lönd, en aðgengi að vatni, hita og plássi séu takmarkandi fyrir uppbyggingu og hvað kostnað varðar sé landeldi ekki samkeppnishæft við kvíaeldi.

Hvort tveggja á rétt á sér
Í símaspjalli við Fiskifréttir segir hann hvort tveggja vissulega eiga rétt á sér, landeldi og sjóeldi, en landeldi geti aldrei komið alfarið í staðinn fyrir sjóeldið eins og sumir heitir andstæðingar sjóeldis hafa gert sér vonir um.

„Stórskala landeldi kallar á gríðarlegt magn af vatni og það er bara ekkert í boði alls staðar, ekki heldur hér á Íslandi. Þetta mun alltaf verða takmarkandi þáttur,“ segir hann. „Eins og staðan er í dag eru menn ekkert að ná árangri nema með mikilli vatnsnotkun.“

Til þess að komast af með minni vatnsnotkun þyrfti að vera hægt að endurnýta vatnið, en margra ára vinna við að þróa aðferðir við endurnýtingu vatns hefur enn ekki skilað þeim árangri sem þyrfti.

„Sjálfsagt verður auðvitað einhver framtíð í því þegar menn ná tökum á þessu. En þá fer allt forskot okkar Íslendinga út í hafsauga því þá verða menn með framleiðsluna nær mörkuðunum þar sem ekki þarf neinar vatnsauðlindir.“

Hann segir sekki alveg gera sér grein fyrir því hvar mörkin liggja í Öxarfirði þar sem hann starfar, en svigrúmið er takmarkað þar eins og annars staðar.

Lítið má út af bera
Varðandi rekstrarhagkvæmni í laxeldi á landi segir hann lítið mega út af bera.

„Ég myndi segja að það sé ekki eins mikill afgangur af þessu í rekstrinum eins og þyrfti að vera miðað við áhættuna sem er í svona rekstri. Það geta alltaf orðið einhver óhöpp og svo erum við mjög viðkvæm líka fyrir verði á mörkuðum. Það þarf til dæmis ekki mikið að breytast í gengismálum til að við séum komnir öfugu megin við núllið. Þetta verður líka alltaf mannfrekari rekstur en sjóeldið.“

Gæðamunur sé hins vegar nokkur, enn sem komið er að minnsta kosti.

„Fiskurinn okkar er betri, en ég veit svo sem ekki hvort það er eitthvað sem menn munu leysa. Það hefur mikið að gera með slátrunaraðferðir. Hérna slátrum við beint úr keri og fiskurinn er dauður á einni sekúndu. Úr sjóeldinu þarf kannski að flytja fiskinn lengri leiðir og þá stressast hann kannski eitthvað. Við erum einnig með fituminna fóður en almennt gerist í sjóeldinu og engin efnameðhöndlun er í eldinu, sem er algengt í sjóeldinu, að minnsta kosti erlendis, þegar meðhöndlað er gegn laxalús.

Hann segist samt ekki telja að neinn stór munur sé sjáanlegur á fiski sem tekinn er beint upp úr sjókví og fiski sem tekinn er upp úr keri hjá honum á landi.

Landeldi í vexti
Þrátt fyrir þær takmarkanir sem Arnar Freyr nefnir er landeldi í vexti hér á landi. Nýverið kynnti fyrirtækið Landeldi ehf. stórtæk áform í Þorlákshöfn þar sem stefnt er á fimm þúsund tonna eldi á landi. Meiningin er að ala þar bæði lax og bleikju og hugsanlega sjóbirting þegar fram líða stundir.

Að þessu standa bræðurnir Ingólfur og Haraldur Snorrasynir ásamt Jóni Árna Ágústssyni, Valdimar Bergstað, Halldóri Ólafi Halldórssyni og Inga Karli Ingólfssyni.

Þeir bræður, Ingólfur og Haraldur, hafa reynslu af fiskeldi allt frá bernskudögum. Faðir þeirra, Snorri Ólafsson, rak á sínum tíma Bakkalax í Ölfusi sem lengi var eitt af frumkvöðlafyrirtækjum þess tíma í fiskeldi.

„Ég er nú alinn upp í kringum þetta frá því ég var peyi. Þegar ég var tólf, þrettán ára gamall, það var 1986 til 87, var ég að byrja að vinna í Bakkalax og síðan fylgir þetta mér upp í gegnum unglingsárin þangað til þessi rekstur lagðist meira og minna af.“

Þessir tímar höfðu mótandi áhrif á bræðurna báða sem nú eru að feta í fótspor föður síns.

Spennandi tímar
Ingólfur segir nú vera spennandi tíma til að hefja rekstur af þessu tagi.

„Norðmenn eru búnir að keyra kvíaeldi í mörg ár og út úr þessum rekstri þeirra er að koma mikill lærdómur. Núna eru þeir að leggja áherslu á að þróa aðferðir og leggja vinnu í vegvísi fyrir geirann, leiðarvísi fyrir fiskeldi.“

Hann nefnir þar Norsk industri, samtök norskra iðnfyrirtækja, sem nýlega birtu vegvísi fyrir fiskeldisgeirann þar sem sú stefna er mörkuð að norsk laxeldisframleiðsla verði skilvirkasta og náttúruvænsta prótínframleiðsla í heiminum. Markmiðið sé að árið 2030 verði ekkert strok í kvíum, engin laxalús og allur úrgangur verði endurunninn.

„Við eigum mjög góða möguleika á að ná þeim markmiðum í þeim aðstæðum sem eru í Þorlákshöfn, og við erum ekkert þeir einu sem eru að nýta þessa þætti sem gera okkur til að mynda lausa við laxalúsina. Við erum hér í vari fyrir ákveðnum umhverfisþáttum sem tryggja að við getum framleitt með sem minnstri lyfjanotkun til dæmis.“

Neytendur í Bandaríkjunum og víðar gera til dæmis æ ríkari kröfur um lyfjafría framleiðslu og hér á landi er að finna staði og aðstæður þar sem nýta má náttúrulega síaðan jarðsjó svo hægt sé að standa undir slíkum kröfum.

Vatn í stríðum straumum
Hann segir möguleikana í strandeldi vissulega ekki ótakmarkaða og vatnsmagnið sé eitt af því sem setur eldinu mörk. Allt svæðið frá Ölfusi og út á Suðurnesin sé hins vegar gríðarlega auðugt að vatni.

„Þarna undir hrauninu eru ferskvatnsstraumar á heimsmælikvarða og það er einmitt þess vegna sem við Íslendingar höfum þessa sérstöðu og möguleika. Við erum með aðstæður hér sem aðrar þjóðir hafa ekki, til að mynda Noregur.“

Hann segir vatnið síðan ekki vera eina þáttinn sem geri Þorlákshöfn hentuga fyrir fiskeldi.

„Vatnið er jú einn af stóru þáttunum en hér í Þorlákshöfn er líka mikil reynsla í allri vinnslu og rekstri í sjávarútvegi auk þess sem staðsetningin er mjög hentug upp á flutninga. Hér er stutt í flugvöllinn og hér eru breyttar aðstæður í sjóflutningum sem ekki bara við heldur fyrirtæki hér á suðvesturhorninu og Suðurlandi geta nýtt sér. Allir sem eru í útflutningi ættu að hafa augun opin fyrir tækifærum eins og þeim sem eru hér í Þorlákshöfn.“

Dýravelferð
Hann segir uppbyggingu strandstöðva dýrari en kvíaeldis en á móti komi öruggari stjórnun og væntingar um meiri gæði vörunnar. Eitt af því sem þarf að mati Ingólfs að huga sérstaklega að er velferð fisksins og hreinlega „líðan vörunnar“ eins og hann orðar það.

„Síðan hafa framleiðendur verið að lenda í skakkaföllum með búnaðinn. Kvíarnar hafa skemmst og nætur rifnað og það er heldur engin launung á því að kvíaeldi hefur haft áhrif á árnar, bæði í Kanada, Skotlandi og Noregi sem dæmi.“

„Þegar við skoðum heildarmyndina og berum saman fjárhagslegan ávinning og allar þessar áskoranir þá er greinilegt að þetta er miklu stærri mynd en bara það að kvíaeldi geti hugsanlega skilað betri excel-niðurstöðu, sem er þá einhverjum örfáum prósentum meiri hagnaður á rekstrarreikningi. Málið er bara ekki svo einfalt. Heildarmyndin verður að vera í fyrirrúmi; framleiðslan, dýravelferðin og umhverfisáhrifin.“