Áttunda samningalota Bretlands og Evrópusambandsins um framtíðarfyrirkomulag samskipta þeirra hófst á þriðjudag og lýkur í dag, fimmtudag.
Michel Barnier, aðalfulltrúi Evrópusambandsins í samningaviðræðum við Breta, segir að klukkan tifi, lokasamkomulag þurfi að vera í höfn fyrir októberlok.
„Frá því þessar samningaviðræður hófust hafa Bretar ekki sýnt neinn vilja til þess að leita málamiðlana um sjávarútveg. Breskir samningamenn hafa ekki lagt neina nýja lagatexta á borðið. Meðan ESB hefur verið opið fyrir mögulegum lausnum þá hefur Bretland hunsað tilboðin frá okkur,“ sagði Barnier í ræðu á Írlandi nýverið.
„Við höfum fullan skilning á því og virðum það að Bretar vilji verða sjálfstætt strandríki, utan sameiginlegu sjávarútvegsstefnunnar. En við munum ekki samþykkja að störf og lifibrauð þessara manna og kvenna verði notuð sem skiptimynd í þessum samningaviðræðum,“ sagði Barnier, en tók þó fram að án „úrlausnar í sjávarútvegsmálum sem er til langs tíma, sanngjörn og sjálfbær þá verður einfaldlega ekkert af nýju samstarfi við Bretland í efnahagsmálum.“
Í júlí síðastliðnum sagðist Barnier telja ólíklegt að samkomulag takist í tæka tíð. Hann ítrekaði það í ágúst og nú á enn að gera tilraun.