Félagið Akranes Seafood hefur gert tilraunir með veiðar á grjótkrabba. Hagkvæmar aðferðir til vinnslu á aflanum eru til skoðunar og frétta að vænta af þeim málum innan tíðar. Guðmundur Páll Jónsson framkvæmdastjóri segir að af þessum sökum hafi félagið ekki lagt í að taka skrefið til fulls í vinnslu á grjótkrabba en nóg sé af honum suðvestanlands og veiðarnar ekki tiltökumál.
Guðmundur Páll segir að það sem hafi áunnist á þeim tíma sem félagið tók til starfa fyrir um það bil tveimur árum sé aukinn skilningur á veiðunum sjálfum og lífríkinu. Núna liggi betur fyrir en áður hvar hann helst veiðist og á hvaða tíma árs en það sem upp á vanti enn þá sé vinnsluþátturinn.
„Við myndum vilja fullnýta krabbann. Við höfum ekki þorað að fara á fullt í þetta fyrr en við sjáum ákveðnar lausnir í vinnslu afurðanna. Við höfum verið að skoða hvort unnt sé að setja upp markvissari vinnslu, en það liggur ekki enn fyrir hvort af því verður.“
Nánari fregna af framgangi þess máls er að vænta innan nokkurra vikna.
Snýst um fullnýtingu
Guðmundur Páll segir málið snúast aðallega um það að geta fullnýtt hvern þann krabba sem hver bátur má koma með að landi. Um 20% af krabbanum falli í besta flokk núna og auðvelt sé að koma því í sölu en vandasamara að koma verðminni hlutum afurðanna í verð fyrr en vinnsluaðferðir hafi þróast. Guðmundur Páll segir aðkallandi að vinnsla á krabba fari upp á næsta stig því veiðarnar sjálfar gætu orðið afar hagkvæmar meðfram öðrum veiðum smábáta, eins og strandveiðum, grásleppuveiðum eða öðrum veiðum. Krabbaveiðarnar kalli því ekki á viðbótarfjárfestingu í bátum. Stærstur hluti strandveiðiflotans er virkur einungis í þrjá til fjóra mánuði á ári en liggur eftir það við festar. Þarna er mikil fjárfesting einstaklinga sem ekki nýtist sem skyldi. Það yrði þó að ganga þannig frá málum að veiðarnar yrðu fyrirsjáanlegar og með þeim hætti að sá sem sækti aflann bæri eitthvað út býtum. Hann segir veiðar á grjótkrabba í Faxaflóa hagkvæmastar í ágúst til janúar og menn sjái fyrir sér að veiðar gætu einnig verið stundaðar af krafti í Breiðafirði. Aldrei yrði um að ræða margar vinnslur á þessu hráefni, heldur fremur eina til tvær sérhæfðar krabbavinnslur.