Ferðaþjónustufyrirtækið Iceland Sea Angling í Súðavík og Bolungarvík hefur tekið á móti meira en hundrað Þjóðverjum það sem af er frístundaveiðitímabilinu
„Hljóðið í okkur er tiltölulega gott úr því maður má vinna,“ segir Finnur Jónsson framkvæmdastjóri. „Einu erfiðleikarnir hafa verið flugið, það er svo stopult.“
Viðskiptavinirnir koma flestir frá Þýskalandi og undanfarin ár hefur verið flogið reglulega til nokkurra borga þar í landi. Eftir að faraldurinn skall á breyttist þetta.
„Núna er bara flogið frá Frankfurt, og ekki á hverjum degi þannig að þetta truflar aðeins. Við náðum samt að aðlaga okkur, en við erum að keyra á svona hálfum afköstum núna.“
Fyrirtækið er með 22 báta en nota 19 af þeim í sumar. Nokkrir eru síðan til vara ef eitthvað kemur upp á, bilanir eða annað. Finnur segir stöðu bókana fyrir sumarið vera þokkalega sem stendur.
„Við erum á tveimur stöðum, Súðavík og Bolungarvík. Bókanir í Súðavík eru mjög góðar en það eru ákveðnar breytingar í húsnæðismálum hjá okkur í Bolungarvík, sem trufluðu bókunartímann þannig að það er bara okkar sök í rauninni, ef svo má segja. Það hefur verið ágætt, svoleiðis.“
Forfallnir
Finnur líkir ferðafólkinu sem kemur gagngert hingað til lands til þess að komast í sjóstangveiði við alhörðustu golfara.
„Í golfinu láta menn ekkert trufla sig í því að fara á völlinn eða að fara í golfferð. Þannig að þegar menn í Þýskalandi hafa ekki aðgang að sjó þá verða þeir að fara þangað sem sjórinn er. Þeir gera allt til að komast.“
Hann segir að þeir sem hafa komist núna í vor séu mjög ánægðir með dvölina.
„Veðrið hefur líka verið dásamlegt og góð veiði.“
Síðan eru teknar myndir, sérstaklega þegar aflinn er vænn. Stærsti fiskurinn sem hefur veiðst í Bolungarvík nún er einn og hálfur metri að lengd og tæplega 30 kíló að þyngd.
„Menn eru mikið að hugsa um stærsta fiskinn og það gleður þá náttúrlega. Þeir eru yfirleitt ekki góðu vanir nema hér, stærðin er miklu meiri hérna heldur en þar sem þeir þekkja til. Í Noregi er til dæmis miklu smærri fiskur yfirleitt heldur en hér.“
Finnur segir að sjálfsögðu farið eftir öllum reglum um skimun við komu til landsins. Seinni skimun er svo fimm dögum síðar, og loks aftur farið í skimum áður en haldið er heim á ný.
„Þeir þurfa að sýna það þegar þeir koma heim til sín að þeir séu fríir.“
Á Vestfjörðum er annað fyrirtæki sem býður ferðamönnum upp á sjóstangveiði. Það er Iceland Pro Fishing á Suðureyri, en Róbert Schmidt framkvæmdastjóri segir að fyrstu ferðamennirnir komi ekki fyrr en 8. júní. Bókanir fyrir sumarið lofi góðu, en allt sé það háð því að ferðamennirnir komist til landsins. Óvissan vegna Covid 19 er enn töluverð í þessum bransa.