Fjórir skipstjórar hafa játað fyrir yfirrétti í Edinborg að hafa veitt rangar upplýsingar um landaðan afla að verðmæti  8 milljónir sterlingspunda (jafnvirði um 1,5 milljarða íslenskra króna).   Áður höfðu 17 aðrir og tvö fiskvinnslufyrirtæki verið sakfelld fyrir sambærileg brot.

Frá þessu er sagt á vefnum www.fishupdate.com .

Umrædd brot á lögum um fiskveiðar felast í fjölda ólöglegra landana þriggja skipa (alls 182 landanir) á makríl og síld á árunum 2002 til 2005 þar sem skipstjórarnir gáfu rangar upplýsingar um aflamagn í þeim tilgangi að víkja sér undan takmörkun á afla sem fólst í kvóta útgefnun á skip þeirra.  Aflanum var landað í fiskvinnslu í Peterhead í Skotlandi.

Eftir réttahaldið sagði Lindsey Miller, yfirmaður lögregludeildar sem rannsakar alvarlega og skipulega glæpi að saksókn gegn þessum einstaklingum komi í kjölfar sakfellingar sautján annarra einstaklinga og tveggja fiskvinnslufyrirtækja á árunum 2010 og 2011 fyrir svipuð brot. Hún sagði að málin vera hluta víðtækrar og flókinnar rannsóknar sem standi yfir og varðar landanir á fiski.

Friðrik J. Arngrímsson framkvæmdastjóri LÍÚ segir á vef LÍÚ af þessu tilefni að Skotar hafi um langt árabil stundað umfangsmiklar veiðar umfram aflaheimildir þeirra í makríl og síld.  Hann segir að frá því að mikil aukning varð á göngum makríls á Íslandmið og makrílveiðum íslenskra skipa hafi útgerðarmenn skoskra uppsjávarskipa, með Ian Gatt framkvæmdastjóra samtaka þeirra í broddi fylkingar, ítrekað ásakað Íslendinga um óábyrgar makrílveiðar. Þeir hafi jafnframt krafist þess að ESB grípi til ólömætra viðskiptaþvingana gegn Íslendingum.

„Við eigum sama rétt til að veiða makríl í Íslensku lögsögunni og ESB á til veiða í sinni lögsögu.  Það er óviðunandi að sitja undir ásökunum um ólögmætar og óábyrgar veiðar frá þessum aðilum og mikilvægt að íslensk stjórnvöld hviki hvergi frá rétti okkar til makrílveiða," segir Friðrik.