Alþjóðahafrannsóknaráðið hefur nú snúið baki við þeirri aðferðarfræði sem lögð hefur verið til grundvallar ráðgjöf um veiðar úr makrílstofninum og aðlagað ráðgjöfina að þeim afla sem veiddur hefur verið á undanförnum árum.
Ráðið leggur nú til að leyft verði að veiða 890.000 tonn af makríl á næsta ári en ráðgjöfin fyrir þetta ár hljóðaði upp á 542.000 tonn. Þeir kvótar sem veiðiþjóðirnar sjálfar hafa sett sér á þessu ári gera samanlagt 906.000 tonn. Þetta kemur fram á vef norsku hafrannsóknastofnunarinnar.
Mikil óvissa ríkir um stærð makrílstofnsins en veiðar síðustu ára, sem verið hafa langt umfram veiðiráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins, virðast síður en svo hafa skaðað hann. Allt ásakanirnar um að Íslendingar og Færeyingar hafi stuðlað að stórskaðlegri ofveiði á stofninum eiga því ekki við rök að styðjast.