Norska sjávarafurðarráðið ætlar að bæta í markaðssókn á öðrum mikilvægum útflutningsmörkuðum í kjölfar innflutningsbanns á norskum sjávarafurðum til Rússlands. Alls ætlar ráðið að verja um 1,2 milljörðum íslenskra króna í markaðssókn í Frakklandi, Ítalíu, Spáni, Þýskalandi, Bretlandi, Japan og Noreg i til viðbótar við þær fjárfestingar sem þegar voru fyrirhugaðar í þessu skyni á þessum mörkuðum.
Norska sjávarafurðaráðið er nokkurs konar útflutningsráð fyrir norskar sjávarafurðir og fær fjárframlög frá norskum sjávarútvegi. Ráðið hefur ákveðið að slá á frest öllum fyrirhuguðum markaðsaðgerðum í Rússlandi og beina fjármagninu inn á aðra markaði.
Framleiðendur í lax- og bleikjueldi hafa misst mikilvægan markað í Rússlandi með innflutningsbanninu og þurfa nauðsynlega að finna aðra markaði fyrir afurðir sínar. Norska sjávarafurðaráðið hefur átt náið samráð með framleiðendum um markaðssókn í öðrum löndum með það að markmiði að halda uppi þeirri miklu eftirspurn sem er eftir norskum laxi á heimsvísu.
Rússland var ekki síður mikilvægur síldarmarkaður fyrir Norðmenn. Ráðið hafði áform að verja 300 milljónum íslenskra króna til markaðssóknar fyrir uppsjávartegundir í Rússlandi en hefur nú ákveðið að draga í land með það.