Mikil aukning hefur verið í sölu á fiski í stórmörkuðum í Noregi á undanförnum árum. Sem dæmi má nefna að verslunarkeðjan Rema 1000 seldi 227% meira af neyslufiski á síðasta ári en hún gerði fyrir fimm árum. Hjá Kiwi nam aukningin hvorki meira né minna en 625%.

Þá sýna kannanir að aukningin er allra mest í hópi barnafjölskyldna og meðal fólks á aldrinum 15-24 ára. Þessir hópar höfðu fisk sem aðalmáltíð dagsins 81 sinni á síðasta ári samanborið við 62 sinnum á árinu 2005. Líklegt er að mikill áróður í fjölmiðlum fyrir aukinni fiskneyslu og kynning á fjölbreyttum matgreiðsluaðferðum hafi haft sín áhrif.

Í Fiskeribladet/Fiskaren er haft eftir sérfræðingi  að fiskur virðist ekki hafa á sér sama neikvæða stimpilinn nú eins og hann hafði þegar foreldrar yngri kynslóðarinnar í dag voru að vaxa úr grasi og soðinn fiskur og grænmeti var eina matreiðsluaðferðin. Nú sé fjölbreytnin meiri og börnin hafi því úr meiru að velja.

„Í Noregi borðum við 20 kíló af fiski á ári en í Portúgal er fiskneyslan 60 kíló á ári,“ segir Elisabeth Aspaker sjávarútvegsráðherra Noregs í viðtali við blaðið og bætir við: „Fjölbreytni í matreiðslu er miklu meiri í Portúgal. Til þess að vera góð húsmóðir þar í landi þarf maður að kunna að matreiða saltfisk á 100 mismunandi máta, en í Noregi er varla nokkur sem getur matreitt hann nema á einn veg.“