Rakel Sævarsdóttir hjá Skipasýn segir að til framtíðar litið séu stóru skrúfurnar ekki endilega neitt stórar. Þær gömlu séu kannski bara litlar.

Fyrir tæplega tveimur árum komu til landsins tveir nýir skuttogarar, Páll Pálsson ÍS og Breki VE. Bæði þessi skip eru hönnuð af Skipasýn og með stærri skrúfur en almennt hefur tíðkast hér á landi. Hraðfrystihúsið Gunnvör gerir út Pál Pálsson en Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum Breka.

Þau Sævar Birgisson og Rakel Sævarsdóttir hjá Skipasýn segja skrúfustærðina skipta sköpum þegar kemur að orkusparnaði og hagkvæmni skipanna tveggja. Rakel flutti erindi á Sjávarútvegsráðstefnunni í haust þar sem hún skoðaði hvort sá árangur sem að var stefnt hafi í raun náðst.

„Menn eru mjög ánægðir, bæði hjá Vinnslustöðinni og hjá Hraðfrystihúsinu Gunnvör,“ sagði Rakel. Afkastagetan sé meiri og olíueyðslan minni. Rekstrarkostnaður lægri og veiðiferðirnar styttri.

Fljótari að veiða

Hún tók þó fram að þar komi fleira til en skrúfustærðin ein.

„Það þarf auðvitað meira en mikið togafl til að gera gott skip. Þegar verið er að stjórna 50 metra togara með tvö troll í dragi þá þarf að vera auðvelt að stýra honum. Það er gott að hafa langan kjöl og stýrið þarf að vera gott. Það er gott að hafa stórt stýri og með stærri skrúfu færðu stærra stýri. Stærð á veiðarfærum skiptir máli og þeir vildu hafa tvö troll til þess að auka gæðin,“ sagði hún.

„Þeir eru fljótari að veiða, trollin eru styttri tíma í sjónum og aflinn er fljótari að koma. Það er alltaf betra að hámarka afkastagetu veiðarfæranna, ef aflinn er meiri en áhöfnin afkastar, þá er bara að liggja í aðgerð, skipin eru þá ekki að eyða olíu á meðan,“ sagði hún,

Engu að síður er skrúfustærðin ákveðið lykilatriði þegar að hagkvæmni kemur.

„Skrúfan notar 90 prósent af orkunni, þar af 63 prósent þegar skipið er á tog, en það er fyrst og fremst þar sem er notað mikið afl á litlum hraða sem stór skrúfa kemur að góðu gagni,“ sagði hún.

„Í stuttu máli þá er málið að því stærri sem skrúfan er því betra. Það þarf minna afl til að koma meiri vökva í gegnum skrúfustreymið eftir því sem skrúfan er stærri.“

Vindmyllur stækka líka

Hún bar saman þróunina í skrúfustærð við þróunina í vindmyllum. Frá 1980 hafa vindmyllur stækkað úr 15 metra þvermáli upp í 124 metra þvermál.

„Þetta er auðvitað ekki hægt á skipsskrúfu hlutfallslega svo mikið, en djúpristan í flestum höfnum leyfir 5m skrúfu.“

Hvað varðar Breka og Pál Pálsson, þá fékk Rakel tölur frá Vinnslustöðinni til að skoða hvort sá árangur hafi náðst sem að var stefnt.

„Breki veiðir á við tvo, já. Hann eyðir örlítið meira en hann er að leysa af tvö skip. Þetta var aldrei spurning hjá Skipasýn um að það myndi nást einhver olíusparnaður heldur var spurningin hvort togspyrnan yrði eins og gert var ráð fyrir,“ sagði hún.

„Olíusparnaðurinn kemur í kjölfarið á því, það hangir saman. Breki skilar 33 prósent meira togi á hvert hestafl miðað við eldri skip af sömu stærðargráðu í íslenska skipaflotanum, sem er ansi góður árangur. Þetta er vegna þess að skrúfan er stærri, það er ekkert flóknara.“

Líklega sé því ekki rétt til framtíðar litið að tala um að skrúfurnar í Breka og Páli Pálssyni séu stórar: „Eru hinar ekki bara litlar?“

Þurfti stærri gír

„Allir bátar sem við höfum smíðað hingað til hafa verið með stóra skrúfu,“ sagði Sævar Birgisson, forstjóri Skipasýnar, þegar Fiskifréttir slógu á þráðinn til hans um daginn. Enda sé löngu vitað að ódýrast sé að framleiða togspyrnu með hægum snúningi skrúfunnar.

„Allar vélar í dag snúast þetta á 750 til 1000 snúningum, sem við köllum milli hraðgengar vélar. En til þess að ná snúningshraðanum og skrúfunni niður þá þarf ansi stóran gír, og þar hefur hnífurinn staðið í kúnni.“

Þetta segir hann að Hraðfrystihúsið Gunnvör og Vinnslustöðin í Eyjum hafi ákveðið að láta þetta sem vind um eyrun þjóta.

„Þeir sögðu við framleiðendur að þeir vilji fá búnað sem skili c.a. 70 snúninga skrúfuhraða, punktur og basta. Skaffið okkur gír sem gírar 800 sn/min niður í 70 sn/min, þá er menn komnir í gírhlutfall sem er yfir einn á móti tíu, og þá þarftu tveggja þrepa gír. Þetta snýst um slíka hluti.“

Aflvísir út úr kú

Sævar segir nauðsynlegt í þessu sambandi að huga að reglum hér á landi um aflvísi. Þær reglur takmarka vélarafl út frá skrúfustærð, því aflvísir er reiknaður út þannig að vélaraflið er margfaldað með þvermáli skrúfunnar. Það þýðir að því stærri sem skrúfan er höfð því minna má vélaraflið vera.

„Eins og þessi aflvísir er byggður upp þá er hann rosalega slæmur og þvingar okkur í alls konar rugl og vitleysu, eins og í okkar nýjustu 29m bátum, þar sem menn gera tilraun með að deila aflinu niður á tvær skrúfur til að ná fram viðunandi nýtni og þar með togspyrnu“ segir hann og nefnir að í nýjum 29 metra togbát sé mjög óeðlilegt að hafa minn vél en sjö til níu hundruð hestöfl, enda þurfi aðalvélin að „drífa spildælur, ísframleiðslu, það þarf að framleiða rafmagn fyrir bátinn ofl. ofl., en allt kostar þetta fleiri hundruð hestöfl. En ef þú setur 800 hestafla aðalvél í bátinn þá máttu einungis hafa skrúfuna tvo metra í þvermál en ættir í raun að hafa hana 3-3,5m og fá þannig 30-40% betri nýtni en 2m skrúfa gefur “

Það er ekki gott, að á sama tíma og hamrað er á okkur að hanna skip sem eyði sem minnst og losi sem minnst af koltvísýring út í andrúmsloftið, þá eru í gildi reglur um fiskveiðistjórnun sem hvetja beinlínis til hins gangstæða.

Fréttin birtist upphaflega í Nýsköpunarblaði Fiskifrétta 20. febrúar