Flestir stærstu línubátarnir í flotanum hafa verið á blálönguveiðum í sumar og aflað vel, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum. Blálangan, sem er utan kvóta, var kærkomin búbót þegar kvótabundnu tegundirnar voru uppveiddar í vor og stuðlaði að því að unnt var að lengja úthald bátanna umtalsvert.
Vísisbátarnir verða á þessum veiðum út fiskveiðiárið ef frá er talið vikufrí í kringum verslunarmannahelgina en línubátar Þorbjörns í Grindavík eru að fara í lengra sumarfrí einn af öðrum. Nokkrir stórir línubátar frá öðrum útgerðum eru einnig á blálöngunni.
Blálangan veiðist djúpt úti af öllu sunnan- og vestanverðu landinu og mun meira er af henni á ferðinni en undanfarin ár að sögn sjómanna.
Í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu er rætt við skipstjórann á línubátnum Sturlu GK um blálönguveiðarnar.