Eiríkur hafði um margra ára skeið verið fengsæll skipstjóri Helgu Maríu sem HB Grandi gerði út. Síðan hann hætti þar hefur leiðin legið til Grænlands og Síldarsmuguna á erlendum skipum Samherja samstæðunnar.
Eiríkur byrjaði til sjós 14 ára gamall og hefur því verið til sjós á togurum í bráðum hálfa öld. Fyrsta plássið var á Jóni Þorlákssyni RE sem Bæjarútgerð Reykjavíkur gerði út og Ragnar Franzson var skipstjóri. Þar var Eiríkur hálfdrættingur. Þá var til siðs að taka unga stráka sem hálfdrættinga fyrsta túrinn.
Blautir en hörkusjómenn
„Ég var ekki nema einn túr sem hálfdrættingur en hélt svo áfram sem háseti. Á Jóni Þorlákssyni voru nokkrir strákar sem seinna urðu skipstjórar. Þetta var í kringum 1970 og sjómennskan var allt öðru vísi í þessa daga. Það voru 30 karlar á síðutogurunum og ekki hægt að líkja þessu saman við það sem er í dag. Það var allt gert erfiðara. Trollið tekið inn á síðuna og tíu menn á vakt. Menn voru kannski að fara á kaf í sjó nokkrum sinnum á hverri vakt. Það voru engir hjálmar eða öryggisbúnaður. Það var líka hálfgerð niðurlæging í kringum togaramennskuna á þessum árum. Það var talsvert um drykkjumenn sem voru blautir í landi en hörku sjómenn þegar upp var staðið. Það var gaman að kynnast þessu eftir á að hyggja og þessi lífsreynsla situr í minningunni,“ segir Eiríkur.
Þegar skuttogaravæðingin hófst af krafti upp úr 1973 fór Eiríkur á Dagstjörnuna KE sem gerð var út frá Keflavík. Þar réði ríkjum einn kunnasti togaraskipstjóri Íslands, Ragnar Franzson, faðir Eiríks, sem nú er nýlega látinn. Á Dagstjörnunni var Eiríkur háseti í tvö ár en fór svo í Stýrimannaskólann 1975. Að námi loknu fór hann í fyrsta sinn í brú á fjölveiðiskipinu Guðmundi Jónssyni GK sem var nýsmíði og talið eitt fullkomnasta fiskiskip flotans. Þorsteinn Einarsson hét skipstjórinn og Eiríkur var stýrimaður í fyrsta sinn. Þegar skipið var selt til Vestmanneyja og fékk nafnið Breki réði Eiríkur sig aftur til föður síns á Dagstjörnuna sem bátsmaður og seinna stýrimaður.
1977 fékk Ísbjörninn afhentan skuttogarann Ásgeir RE, sem smíðaður var í Flekkefjord í Noregi, og ári síðar systurskipið Ásbjörn RE. Um svipað leyti reisti fyrirtækið frystihúsið Ísbjörninn á Norðurgarði þar sem Brim hf. er nú með starfsemi. Þeir feðgar tóku við Ásbirni RE 1978. Eiríkur var fyrst annar stýrimaður, svo fyrsti stýrimaður og skipstjóri í afleysingum á Ásbirni. Leysti hann fyrst af sem skipstjóri á Ásbirninum 24 ára gamall.
Sjólaárin
Næst lá leiðin yfir á Karlsefni RE 24 sem Sjólastöðin í Hafnarfirði gerði tímabundið út. Þar var Eiríkur í tvö ár áður en skipið var selt úr landi. Sjólastöðin hafði þá nýlega tekið við tveimur nýsmíðum frá Noregi, Haraldi Kristjánssyni HF, seinna Helga María RE, og Sjóla HF, nú Málmey SK 1. Helgi Kristjánsson, nú sölustjóri Naust Marine, var ráðinn skipstjóri og Eiríkur 1. stýrimaður. Leiðir Helga og Eiríks höfðu legið saman áður því þeir höfðu verið saman á Jóni Þorlákssyni. Þar var líka Páll Eyjólfsson, núna skipstjóri á Soley sem fiskar makríl við strendur Afríku. Páll og Eiríkur eru frændur og byrjuðu saman sem hálfdrættingar á Jóni Þorlákssyni 1970 og skiptu með sér einum hlut. Leiðir þeirra lágu sem sagt aftur saman á Haraldi Kristjánssyni HF-2. Helgi hætti fljótlega sem skipstjóri og gerðist útgerðarstjóri Sjólastöðvarinnar. Páll var ráðinn skipstjóri og Eiríkur 1. stýrimaður. Páll hætti svo 1995 og tók Eiríkur þá við sem skipstjóri Haralds Kristjánssonar og átti eftir að fylgja skipinu lengi eftir.
1999 seldi Sjólastöðin skipið til Haraldar Böðvarssonar á Akranesi og það fékk nafnið Helga María AK 16. Það kemst síðan í eigu HB Granda við sameiningu Granda og HB á Akranesi 2004 og heitir nú Helga María RE 1. Árið 2013 var Helgu Maríu siglt til Gdansk í Póllandi þar sem fóru fram gagngerðar breytingar og lagfæringar á skipinu. Allur búnaður til frystingar var tekinn úr skipinu. Þegar skipið kom heim um seint um haustið var settur í það búnaður til að meðhöndla og hraðkæla fisk. Eiríkur stýrði skipinu öll þess ár, eða allt til áramótanna 2013/2014 þá skildu leiðir Eiríks og þessa farsæla og góða skips.
„Síðasta árið sem ég var skipstjóri á Helgu Maríu var árið eftir að henni hafði verið breytt fyrir ísfisk. Sú umbreyting gekk mjög vel að mínu mati og við urðum aflahæstir ísfisktogara þetta fyrsta ár. Við fiskuðum 8.700 tonn en vorum samt stoppaðir af töluvert mikið.“ Það sem situr efst í huga mér eftir öll þessi ár um borð í þessu góða skipi alls 26 ár.Er allt það góða fólk sem ég starfaði með á þessum árum,og þau 20 ár sem ég var þar skipstjóri að skila alltaf skipinu heilu og slysalausu í höfn,oftast með ágætis afla.það er ég þakklátastur fyrir.
Til Grænlands
Sumarið 2015 fór Eiríkur svo að vinna fyrir Nanoq Seafood á Grænlandi og var þar um þriggja ára skeið. Hann var um skeið skipstjóri á Tuneq á partrolli með öðru skipi með flottroll á síld. Skipið var selt til Íslands og sigldi Eiríkur því til Eyja. Í framhaldi tók hann við Timmiarmiut, 55 metra löngu skipi sem komst síðar í eigu norsks fyrirtækis. Það liggur nú strandað norður á Svalbarða. Svo lá leiðin yfir á stærsta skipið í flota Nanoq Seafood, Tasermiut. Hann var á rækju og makríl og síld í grænlensku lögsögunni en líka á bolfisk við Austur-Grænland og í norsku lögsögunni. „Á grænlensku skipunum lærði ég að fiska með tveimur trollum í einu og oft var fiskað inn í hafísnum. Á þeim fórum við nyrst eða norður á 83° N á rækjumiðunum norðan við Svalbarða.“

Áhöfnin á Ásbirninum tekst á við brælu en Eiríkur hefur séð misjafnar aðstæður við veiðar. Mynd/Þröstur Njálsson
„Ég var með blandaðar áhafnir á þessum skipum Grænlendinga,Íslendinga og Færeyinga. Ég hafði aldrei unnið með grænlenskum sjómönnum áður. Ég komst að því að þeir eru upp til hópa góðir sjómenn og listagott að vinna með þeim. Þarna eignaðist ég líka góða vini sem ég myndi starfa með hvar og hvenær sem er. Mér finnst reyndar að Íslendingar ættu að auka samstarf sitt við Grænlendinga í sjávarútvegsmálum. Við eigum aðliggjandi fiskimið og höfum gert samning um samstarf í hafrannsóknum. Fiskurinn er alltaf að færast norðar. Hver veit nema loðnan endi öll innan grænlenskrar lögsögu? Hún er örugglega að stórum hluta þar núna. Vesturgöngurnar eru hættar að koma en þær redduðu oft loðnuvertíðinni á árum áður. Ýsa er farin að veiðast meira úti fyrir Norðurlandi og nú er talað um að erfitt sé að ná þorski og hann haldi sig mest úti fyrir Norðurlandi. Það er stutt þarna á milli yfir í grænlenska lögsögu svo hagsmunir okkar eru alveg skýrir.“
Á skipum Samherja
Síðastliðið vor fékk Eiríkur upphringingu frá Jóhannesi Þorvarðasyni skipstjóra sem starfar fyrir félög tengd Samherja í Frakklandi. Bað hann Eirík um að vera Birni Val Gíslasyni, skipstjóra á Emeraude, til hægri handar og ráðgjafar sem stýrimaður við veiðar með Gloríu flottrolli frá Hampiðjunni. Ekki var hann fyrr kominn úr þeim túr en hann var beðinn um að gera slíkt hið sama í Kirkellu.
„Við Jóhannes þekkjumst vel. Við höfðum unnið mikið saman sem skipstjórar þegar hann starfaði heima á Íslandi sem slíkur. Auk þess erum við gamlir skólafélaga. Jói er toppmaður og mikill fengur fyrir fyrirtækið að hafa hann innan sinna raða. Ég ekki einn um þá skoðun.“
„Þetta gekk allt saman mjög vel. Ég og Sigurbjörn Reimarsson skipstjóri ákváðum að reyna fyrir okkur dálítið vestar í Síldarsmugunni. Við lentum þar í hörkuveiði í úthafskarfa og menn náðu góðum tökum á Gloríu trollinu. Það var virkilega gaman að kynnast þessum kollegum mínum sem starfa á skipum Samherja í erlendu deildinni. Þetta eru toppmenn allir upp til hópa. Hvort sem er í brú eða vélarúmi. Einn er það þó sem mig langar að nefna sérstaklega. Það er minn gamli skólafélagi úr Stýrimannaskólanum, Brynjólfur Oddsson (Billó) skipstjóri á Lodairo. Afburða klár sjómaður og skipstjóri. Það má segja að Billó sé gangandi upplýsingabanki. Held að fáir skipstjórar búi yfir jafn víðtækum upplýsingum er varða fiskislóðir í Norðurhöfum og Billó gerir og hann er ónískur að miðla þessum upplýsingum til þeirra sem minna vita,“ segir Eiríkur.
Glorían
Eiríkur hefur mikla reynslu af þessu fræga trolli í gegnum sinn skipstjóraferil. 1990 fór hann á Reykjaneshrygginn á Haraldi Kristjánssyni HF með Páli Eyjólfssyni sem skipstjóra. Þeir voru með stórmöskva troll frá Hampiðjunni sem hafði ekki ennþá verið gefið nafn. Guðmundur Gunnarsson veiðarfærahönnuður var um borð. Frétst hafði af því að Rússar og Þjóðverjar hefðu mokveitt karfa við landhelgismörkin. Þeir voru með stórmöskvatroll. Guðmundur hannaði troll sem prófað var við veiðar um vorið. Hver möskvi fremst í trollinu var á að giska 32 metrar á lengd. Veiðarnar gengu brösuglega og þeir lentu líka í því að rífa trollið.
„Í restina fengum við einhver 200 tonn sem björguðu túrnum. Á heimleiðinni kemur þessi fleyga setning Páls: „Hvenær heldur þú Guðmundur, að við getum fiskað almennilega í þessa druslu? Djöfulsins gloríu held ég að þú sért búinn að gera núna.“ Guðmundur sat út í horni og horfði á teikningarnar sínar og sagði: „Ég held ég eigi nú samt eftir að fá þetta til að fúnkera, Palli minn.““
Guðmundur gerði sínar breytingar á trollinu og aftur var haldið á Reykjaneshrygginn. Það mokveiddist og aðrir Íslendingar voru fljótir að taka við sér og panta sams konar troll. Guðmundur varð að gefa því nafn og þá mundi hann orðaskiptin við Pál skipstjóra og nefndi trollið Gloríu.
Gloríu trollið hefur farið víða og þykir fiskið veiðarfæri. Samherji vildi nota það í sínum evrópska flota og fékk því Eirík til að vera mönnum innan handar við ýmis úrlausnarefni sem tengjast notkun þess.
50 ár á sjónum
„Ég hef núna starfað sem sjómaður í nærri hálfa öld og er ég stoltur af því. Stoltur að tilheyra hópi manna sem starfar við erfiðustu aðstæður í heimi sem eru miðin á norðurslóðum. Eins langar mig að minnast á fjölskyldur okkar og maka. Þetta eru okkar hetjur. Hetjur sem halda öllu gangandi meðan við erum fjarri heimilum okkar. Nú líður senn að jólum. Mig langar því að senda öllum sjómönnum og fjölskyldum þeirra og öllu því góða fólki sem ég hef starfað með í sjávarútvegi jólakveðju,“ segir Eiríkur að lokum.