Góðar fréttir af þorskstofninum koma úr bráðabirgðaniðurstöðum togararallsins sem Hafrannsóknastofnun var að birta rétt í þessu.

Útbreiðsla þorsks var meiri en í mörgum fyrri stofnmælingum í mars og góður afli fékkst á stöðvum allt í kringum landið. Stofnvísitala þorsks mældist sú hæsta frá upphafi rannsóknanna árið 1985 og er nú tvöfalt hærri en árin 2002-2008, en svipuð og hún var árið 2012. Hækkun vísitölunnar má einkum rekja til aukins magns af stórum þorski.

Í ár var vísitala allra lengdarflokka stærri en 60 cm yfir meðaltali tímabilsins, en minna mældist af 50-60 cm þorski sem rekja má til lélegs árgangs frá 2010.

2014 árgangur þorsks stór

Fyrsta mat á 2014 árgangi þorsks bendir til að hann sé meðal stærstu árganga frá 1985, svipaður og árgangar 2008, 2009 og 2011. Hann kemur í kjölfar lítils árgangs frá 2013.

Meðalþyngd 5 ára þorsks og eldri hefur farið vaxandi undanfarin ár og er nú yfir meðaltali rannsóknatímans, en meðalþyngd 3 og 4 ára þorsks er hins vegar nokkuð undir meðaltali.

Magn fæðu í þorski var minna en árin 2010-2014. Loðnan var langmikilvægasta bráð þorsksins eins og ávallt á þessum árstíma. Mest var af loðnu í mögum þorsks út af Vestfjörðum, við suðurströndina og Norðausturland (7. mynd). Af annarri fæðu má helst nefna síld, kolmunna, ísrækju og ýmsar tegundir fiska.

Sjá nánar niðurstöður varðandi aðra fiskistofna á vef Hafró.