Kolefnislosun íslenskra fiskiskipa er almennt minni á hverja veiðieiningu þegar stofnarnir eru stórir og heilbrigðir heldur en þegar stofnarnir eru minni.
Þetta er ein helsta niðurstaða rannsóknar sem Daði Már Kristófersson, prófessor við Háskóla Íslands, gerði ásamt Stefáni Gunnlaugssyni prófessor og Hreiðari Valtýssyni dósent, sem báðir starfa við Háskólann á Akureyri. Rannsóknin var birt í tímariti Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) fyrir rúmlega ári, en Daði Már kynnti niðurstöðurnar á Þjóðarspegli Háskóla Íslands í nóvember síðastliðnum.
„Fiskiskipaflotinn losar í kringum 10% af heildarlosun Íslands og það sem við vorum að skoða, ég og kollegar mínir við Háskólann á Akureyri, var hvaða hlutir það eru sem hafa áhrif á þessa losun,“ sagði Daði Már.
Heilbrigði stofnanna
„Það sem hefur langsamlega stærst áhrif er stærð fiskistofnanna, heilbrigði fiskistofnanna. Því heilbrigðari sem fiskistofnarnir eru, því stærri sem þeir eru, því minni er losunin á hverja einingu. Við sjáum auðvitað að það er ákveðinn munur á milli ólíkra hluta flotans. Togveiðarnar losa að jafnaði eitthvað meira heldur en t.d. línuveiðar eða handfæraveiðar, netaveiðar. Munurinn hefur samt verið að minnka. Því stærri sem stofnarnir verða því minni er þessi munur milli ólíkra aðferða. Og mesti samdrátturinn á tímabili rannsóknarinnar er í togveiðum sem losa núna kannski svipað og smábátar gerðu fyrir tuttugu árum síðan á hverja einingu sem er veidd.“
Hann segir ekki sjáanlegt að aðrir þættir eins og tækniþróun hafi haft afgerandi áhrif á þessa þróun. Olíuverð hafi þó haft áhrif fyrir togveiðarnar og þar með kolefnisskattar sem lagðir hafa verið á olíu, en þau áhrif séu „mjög lítil miðað við það sem heilbrigði stofnanna skilar.“
Allir græða
Hann dregur þá ályktun af þessum niðurstöðum að aðgerðir í loftslagsmálum þurfi ekki að vera sársaukafullar.
„Stundum er það þannig að hagsmunir allra fara saman. Með stærri fiskistofnum þá verður auðveldara að stunda veiðar. Meira að segja er það þannig að það er hægt að veiða raunverulega meira. Það er ódýrara að veiða vegna þess að þú þarft að fara styttra, þú þarft að toga styttra, þannig að hagnaður í útgerð vex og kolefnissporið á hverja einingu sem þú veiðir minnkar. Þannig að það sem við sjáum þarna er dæmi um aðgerð í loftslagsmálum sem að raunverulega allir græða á, enginn líður af.“