Mælingar á smásíld standa nú yfir og mælingar á stærri síld hefjast í næstu viku. Dröfn RE fór í smásíldarleiðangur í síðustu viku og kannar aðallega svæðið frá Öxarfirði að Arnarfirði.
Rannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson fer af stað í byrjun næstu viku og mælir veiðistofn síldar frá svæðinu fyrir vestan land, austur með Suðurlandi og allt austur að Litla dýpi.
Í þessum leiðöngrum er verið að mæla stofnstærð íslensku sumargotssíldarinnar. Þorsteinn Sigurðsson, sviðsstjóri nytjastofnasviðs Hafrannsóknastofnunar, sagði í samtali við Fiskifréttir að þar sem rannsóknir á smásíld væru nýhafnar væri lítið af þeim að frétta. Þá hefðu litlar spurnir borist af síld inni í Breiðafirði enn sem komið er.