Mikilvægt er að taka málefni íslenska matvælaiðnaðarins föstum tökum hið allra fyrsta. Ekki þarf aðeins pólitíska forystu heldur samvinnu allra sem koma að málum - hvar í virðiskeðjunni sem starfsemi þeirra kann að vera.
Það er ekki á allra vitorði að velta íslenska matvælaiðnaðarins, og matvælafyrirtækja í eigu Íslendinga á erlendri grundu, nemur yfir þúsund milljörðum íslenskra króna. Engin vestræn þjóð hefur jafn mikið umleikis í matvælaiðnaði þegar litið er til höfðatölu. Engin önnur atvinnugrein hefur viðlíka ítök í alþjóðlegum iðnaði eins og matvælaiðnaðurinn. Á sama tíma eru fáar íslenskar vörur þekktar erlendis og ímynd Íslands sem matvælalands er ekki afgerandi. Stefnumörkun, eða skorti á henni er um að kenna og samstarf er vænlegasti kosturinn ef áhugi er á að breyta þessu.
Milljarðar
Þetta er megin niðurstaða greiningar Íslenska sjávarklasans á íslenskum matvælaiðnaði, þar sem Þór Sigfússon, stofnandi klasans, og framkvæmdastjórinn, Berta Daníelsdóttir, halda á penna.
Útflutningsverðmæti sjávarútvegs á Íslandi nam tæplega 270 milljörðum árið 2015, og er uppistaðan í matvælaiðnaðinum hérlendis. Velta í fiskeldi eykst hröðum skrefum og ætla má að vöxtur í þessari grein verði einna mestur innan matvælaiðnaðarins á næstu árum. Þá er aðeins fátt eitt nefnt.
Matvælaiðnað má skilgreina sem alla þá starfsemi sem tengist matvælum. Til viðbótar við sjávarútveg; veiðar, vinnslu, eldi og framleiðslu á tæknibúnaði koma landbúnaður og annar matvælaiðnaður eins og drykkjarvörur, sælgætisgerð, brauðgerð og fleira. Starfsmenn þeirra fyrirtækja sem falla hér undir er á bilinu sautján til átján þúsund manns og ætla má að gjaldeyristekjur fyrirtækjanna sem litið er til séu röskir 350 milljarðar. Utan landsteinanna bætast svo við fyrirtæki sem Íslendingar eiga eða tengjast – fiskréttaverksmiðjur, sjávarútvegsfyrirtæki, fyrirtæki í annarri matvælaframleiðslu eða tæknifyrirtæki í þeim geira. Velta stærstu fyrirtækjanna, og Bakkavör og Marel eru í þeim hópi, er gróflega áætluð 550 til 600 milljarðar króna í greiningunni.
Fer lítið fyrir risanum
Þór segir að engin vestræn þjóð sé með jafn hátt hlutfall af heildarútflutningi sínum tengt matvælum og Íslendingar. Matvælaiðnaðurinn sé risi, en lítt áberandi í þjóðmálaumræðunni þó stór sé. Helst komi hann við sögu þegar tekist er á um aðgang að sameiginlegum auðlindum, ríkisstyrki og einokun.
„Allt á þetta rétt á sér en það er æskilegt að umræðan snúist um aðra þætti þessa máls; hversu mikil tækifæri geta falist í útflutningi á tilbúnum vörum í stað stórpakkninga. Sérstaklega í ljósi þess að sýklalyfjanotkun hérlendis er hverfandi og sjálfbær vottun í veiðum er meiri en hjá nokkru öðru landi,“ segir Þór sem bendir á að breytingar á neysluhegðun fólks á Vesturlöndum er nú hraðari en nokkru sinni. Neytendur eru meðvitaðri um hvað þeir kaupa og vilja vita hvaðan varan kemur, hver framleiddi hana og hvert innihald hennar er. Heilsubyltingin ræður þar miklu um. Vægi lítilla framleiðenda eykst á kostnað þeirra stóru – nýjar greinar í matvælaiðnaði spretta upp og taka sífellt stærri sneið af kökunni en þekktust varla fyrir aðeins fimm til sjö árum síðan.
„Krafa neytenda er persónulegri tenging við framleiðendur. Sé markmið okkar fyrirtækja að efla útflutning matvæla henta þessar nýju áherslur Íslandi afar vel.“
Mörkin að þurrkast út
Í greiningunni segir að mörkin á milli ólíkra matvælagreina er sumpart að þurrkast út. Tæknifyrirtækin sinni öllum greinum matvæla og frumkvöðlar þróa vörur í kjöti einn daginn yfir í fisk eða grænmeti þann næsta.
„Segja má að kerfið í kringum þessa kraftmiklu hópa fylgi þeim ekki eftir; hagsmunasamtökin fylgja þrengri línum og stjórnkerfið allt sömuleiðis. Enn fær Sjávarklasinn þau svör á sumum stöðum að ekki sé ljóst hvort tiltekið frumkvöðlafyrirtæki teljist til landbúnaðar eða sjávarútvegs – og verst er þegar þau teljast vera á einskismannslandi.“
Þar segir jafnframt að tilraunir stjórnvalda til þess að ná utan um þessa þróun séu góðra gjalda verðar – og vísað er til verkefnis ríkisstjórnarinnar um Matarauð Íslands. Verkefnið hét áður Matvælalandið Ísland en það nafn reyndist frátekið af samstarfshópi nokkurra hagaðila í matvælageiranum. Tilgangur þess er að skapa fjölbreyttari atvinnutækifæri í tengslum við matvælaiðnað og matarferðaþjónustu um land allt. Sömuleiðis verður unnið að því að efla jákvæða ímynd og vitund um íslenskar afurðir og staðbundna matarmenningu hér innanlands, segir í tilkynningu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins frá því í apríl.
Þarf að hugsa stærra
En miklu meira þarf til, að mati forsvarsmanna Sjávarklasans. Í fyrsta lagi þarf með myndarlegum hætti að leggjast í greiningarvinnu í sambandi við matvælageirann hér á landi. Horfa má til fordæma nágrannalandanna. Danir hafa tekið stórt og smátt saman á einum stað og í dönskum gögnum má lesa um heildarstærð alls matvælageirans, vöxt hans, helstu útflutningslönd, helstu hindranir, fjárfestingar danskra matvælaframleiðenda erlendis , svo fátt eitt sé nefnt. Í fararbroddi þeirrar vinnu er skýr stefnumótun danska matvælaiðnaðarins – að vera í fararbroddi þegar kemur að framleiðslu og þróun í matvælaframleiðslu og rekstri fyrirtækja innanlands sem utan.
Í þessum gögnum má sjá mestur vöxtur í fjárfestingum og útflutningi danskra fyrirtækja er til Asíu. Á sama tíma hafa Íslendingar lítið gert í markaðssetningu- og sölu matvæla á þessum risavaxna markaði á meðan flestar Norðurlandaþjóðirnar hafa unnið markvisst á því sviði.
Íslensk ímynd og vörumerki eiga að verða meira áberandi á erlendum mörkuðum, segir Þór. „Við höfum magnaða sögu að segja af sýklalausum landbúnaði, hreinu landi og sjó og sjálfbærum veiðum. Hér eru mikil tækifæri til aukinnar verðmætasköpunar“.
Verkefnið er stórt og kallar á samstarf opinberra aðila og alls matvælageirans. Í greiningu Sjávarklasans segir að Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, hefur nú þegar talað fyrir auknu samstarfi atvinnulífs og utanríkisþjónustu við kynningu á Íslandi. Hér þarf ekki að finna upp hjólið því fyrirmyndir af ímyndarvinnu á sviði matvæla má finna hjá nágrannaþjóðum okkar – ekki síst Norðurlandaþjóðunum, segir Þór.