Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra flutti opnunarávarp á málþingi Matís um framtíð matvælaframleiðslu sem haldið var í Hörpu í dag undir yfirskriftinni „Hvað verður í matinn?“
Í ávarpi ráðherra kom m.a. fram að eitt mikilvægasta úrlausnarefni samtímans sé að fæða heiminn á nýjan og heilsusamlegan hátt og samtímis í sátt við umhverfið. Einnig gerði ráðherra mikilvægi stuðnings stjórnvalda við nýsköpun að talsefni sínu.
„Það er deginum ljósara að nýsköpun fær ekki þrifist án markviss stuðnings frá stjórnvöldum. Mikilvægt er að slíkur stuðningur byggi undir lýðheilsu, og að við treystum þau grundvallar mannréttindi að matvæli framtíðarinnar verði aðgengileg öllum, framleidd með sjálfbærum hætti og verði bæði heilnæm og holl“.
Í máli sínu lagði ráðherra áherslu á mikilvægi þess að stjórnvöld leggi sitt lóð á vogarskálina til að skapa lifandi umhverfi sem laðar að hugvit, sérfræðiþekkingu og fjárfestingu sem meðal annars er gert í gegnum Matvælasjóð sem styður við nýsköpun landbúnaðar- og sjávarafurða með beinum hætti. Að auki geri matvælaráðuneytið ráð fyrir 100 m.kr. aukafjárveitingu til Matís sem mótframlagi við erlenda styrki til að auka getu Matís til að sækja um í erlenda samkeppnissjóði.
„Við þurfum að hugsa út fyrir kassann, endurnýta næringarefni og tryggja fullnýtingu afurða. Við þurfum að endurmeta hvernig við nýtum landið og hafsins auðlindir sem hafa fætt okkur í aldanna rás“ sagði ráðherra að lokum. „Það er á okkar ábyrgð að umgangast þessar auðlindir með þeim hætti að komandi kynslóðir geti líka notið þeirra“.