Stefnt er að því að leggja fram á Alþingi frumvarp til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða þegar á haustþingi í framhaldi af skýrslu vinnuhóps sjávarútvegsráðherra, sáttanefndinni svokölluðu, að því er fram kom í ræðu Jóns Bjarnasonar sjávarútvegsráðherra á aðalfundi Samtaka fiskvinnslustöðva sem haldinn var í dag.
Sjávarútvegsráðherra tók fram að ekki yrði eingöngu byggt á áliti sáttanefndarinnar eða þeim tillögum sem fram koma í skýrslu nefndarinnar.
,,Gangur málsins á næstunni verður sá, að nú mun ráðuneytið taka að sér að vinna upp frumvarp eða frumvörp um breytingar á stjórn fiskveiða. Ætlunin er að því verki verði lokið, þannig að slíkt verði hægt að leggja fyrir Alþingi fyrir jólafrí. Er þá ætlunin að breytingarnar geti orðið að lögum á vorþingi þannig að ný skipan mála taki gildi á fiskveiðiárinu 2011/12. Ég veit að það vakna margar spurningar við þessi orð mín. Menn spyrja - munt þú í einu og öllu fara eftir áliti meirihluta nefndarinnar þegar að slíkt meirihlutaálit liggur fyrir. Hvað munt þú gera þar sem leiðbeining nefndarinnar náði aðeins til grundvallar atriða en ekki var sett fram nánari skilgreining. Svarið við þessum spurningum er, að ráðuneytið mun vinna að þessu máli af festu og öryggi. Það mun leita eftir ráðgjöf sérfræðinga á hinum ýmsu sviðum þar sem það telur á því sé þörf. Það mun jafnframt hafa samráð við aðila utan ráðuneytis sem og á hinum pólitíska vettvangi eins og þörf verður talin málefnisins vegna, en hin pólitíska ábyrgð á þeim frumvörpum sem líta dagsins ljós verður ráðherrans og ríkisstjórnarinnar, “ sagði Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra.