Heimkoma Þórunnar Þórðardóttur HF 300, nýs rannsóknaskips Hafrannsóknastofnunar hefur tafist vegna illviðris á hafsvæðinu milli Færeyja og Íslands. Skipið var í gær norður af Færeyjum en sneri við og sigldi til Fuglafjarðar þar sem einn úr áhöfn fór í land slasaður á hendi. Hann mun hafa handleggsbrotnað og fer heim með flugi en ráðgert er að hefja heimsiglingu í fyrramálið þegar versta veðrið hefur gengið niður. Áætluð koma til Hafnarfjarðar er því á laugardag en það ræðst þó af framvindunni í háloftunum.
Skipið var í Fuglafirði síðastliðna nótt en var að sigla út úr firðinum og var ráðgert að vera í vari austan við eyjarnar þar til færi gefst að sigla heim. „Það er önnur lægð að skella á okkur og við þurfum að bíða hana af okkur. Í nótt fer hann að ganga niður og undir morgun ættum við að geta lagt af stað. Þá ætti nú að fara að styttast í okkur,“ segir Guðmundur Sigurðsson skipstjóri. Hann sagði að einn skipverja hafi slasast talsvert og handarbrotnað þannig að það þurfti að fara með hann í land í Fuglafirði þar sem hann komst undir læknishendur. Slysið bar að með þeim hætti að prentari losnaði úr festingu og var skipverjinn að reyna að koma í veg fyrir að hann skylli í gólfið. Þegar hann var að athafna sig kom velta á skipið og skipverjanum skrikaði fótur, ber fyrir sig höndina og handarbrotnaði í fallinu. Í áhöfn Þórunnar voru tíu manns þegar skipið lét úr höfn á Spáni en nú eru þeir orðnir níu, þar á meðal tveir Spánverjar frá skipasmíðastöðinni, vélstjóri og rafvirki, sem eru áhöfninni til halds og trausts í þessari jómfrúarferð.

Guðmundur, sem á að baki 23 ár sem háseti, stýrimaður og skipstjóri á Bjarna Sæmundssyni HF, segir að brjálað veður hafi verið nánast stanslaust frá því látið var úr höfn í Vigo á Spáni á fyrir tæpri viku og þeir hafi mikið þurft að beygja mikið af leið í þessum túr. „Það hafa verið endalaust brjálaðar veðurspár og verið erfitt að koma dömunni heim. Ég talaði við einn á einu af farskipunum hérna og hann sagði að ótíðin undanfarið hefði verið alveg ótrúleg. Manni finnst dálítið miklar öfgar í þessu,“ segir Guðmundur. Hann segir að heimferðin hafi verið nokkurs konar eyjahopp, þeir hafi reynt að komast af einu hafsvæði yfir á það næsta. Á leiðinni þurftu þeir að glíma við 7-8 metra ölduhæð á köflum.
Guðmundur lætur vel af skipinu en menn séu að venjast því ennþá. Það sé margt nýtt í skipinu sem þurfi að læra á. Í því eru fimm tankar sem hægt er að dæla í til að auka stöðugleikann. Skipið standi sig ágætlega en láti dálítið hafa fyrir sér. Menn þurfi að kynnast því betur. Guðmundur segir vissan söknuð af Bjarna Sæmundssyni HF sem er á leið til nýrra eigenda í Noregi en huggar sig við það að hann fær að sjá hann áður en hann heldur austur eftir. „En það er líka ánægjuefni að fá nýtt skip,“ segir Guðmundur.