Síðastliðinn fimmtudag, 29. maí 2014, tókst að koma fyrir gervitunglasendum á tvær steypireyðar skammt norðan Skjálfandaflóa. Frá merkingu hefur annað dýrið haldið sig á litlu svæði innan við 25 sjómílur frá merkingarstað. Fyrstu tvo dagana var hvalurinn í kringum Grímsey en færði sig svo suður á bóginn í Skjálfandadjúp. Aðfararnótt 3. júní synti dýrið rösklega til norðurs og var staddur um 40 sjómílum norður af Hraunhafnartanga um morguninn.

Hin steypireyðurin synti í norðaustur fljótlega eftir merkingu og hefur að mestu haldið til á Þistilfjarðargrunni. Að kvöldi 2. júní var hvalurinn mjög nálægt landi við Melrakkanes, sunnan Raufarhafnar.

Frá þessu er skýrt á vef Hafrannsóknastofnunar.

Steypireyður er sem kunngt er stærsta dýrategundin sem lifað hefur á jörðinni. Margt er óljóst varðandi stofngerð og far steypireyðar í Norður Atlantshafi og eru t.d. vetrarstöðvarnar óþekktar. Þó hefur sama dýrið greinst af ljósmyndum við Ísland að sumri og undan ströndum Máritaníu að vetri. Merkingar með gervitunglasendum hafa á undanförnum áratugum gefið mikilsverðar upplýsingar um ferðir hvala þótt enn skorti mjög á þekkingu á þessu sviði um allan heim. Hafrannsóknastofnun hefur staðið fyrir slíkum merkingum á nokkrum tegundum hvala þ.á.m. steypireyði. Sumarið 2009 tókst að fylgjast með steypireyði í 80 daga (sjá vef Hafró) og árið 2013 í einn mánuð.