Myndir voru teknar af steinbít með neðansjávarmyndavél og um 190 steinbítar voru merktir með rafeindamerkjum í leiðangri Hafrannsóknastofnunar sem farinn var í lok nóvember á síðasta ári á rannsóknarskipinu Bjarna Sæmundssyni.

Steinbíturinn var rannsakaður á Látragrunni, en þar er aðalhrygningarsvæði hans. Meginverkefni leiðangursins var að athuga hvort hægt væri að meta þéttleika hrognaklasa steinbíts með sæbjúgnaplógi og neðansjávarmyndavél. Einnig að kanna þéttleika steinbíts á svæðinu með botnvörpu og að merkja steinbít.

Hægt var að nota neðansjávarmyndavél í tvo daga af þeim sjö sem leiðangur stóð yfir, en til að hægt sé að nota hana þarf gott veður. Aðallega voru tekin myndbönd á svæðinu sem var lokað fyrir rannsóknina, en einnig er hægt með þessari neðansjávarmyndavél að taka ljósmyndir og náðust nokkrar góðar myndir á svæðinu steinbít.

Í leiðangrinum voru merktir 191 steinbítar með rafeindamerkjum sem þegar endurheimt verða, munu gefa upplýsingar um hitastig og ferðir steinbíts. Einnig voru 203 steinbítar merktir með hefðbundnum slöngumerkjum steinbít, en slík merki gefa hugmynd um ferðir steinbíts en þó með mun takmarkaðri upplýsingum.

Hafrannsóknastofnun biður sjómenn og fiskverkafólk að veita því athygli hvort steinbítar sem unnið er með séu merktir og að þeir sem finna merkta steinbíta eru beðnir að hafa samband við nærliggjandi útibú Hafrannsóknastofnunar.

Leiðangursstjóri í þessu leiðangri var Ásgeir Gunnarsson og skipstjóri Ingvi Friðriksson.

Sjá nánar http://www.hafro.is/undir.php?ID=19&nanar=1REF=3&fID=15667