Norska þorskeldisfyrirtækið Vesterålen Havbruk er með stór áform og hefur unnið hratt að uppbyggingu.

Fyrirtækið stefnir að því að framleiða 100.000 tonn af þorski árlega og er þegar búið að fjárfesta í vinnsluhúsi, dráttarbraut og móttöku. Seiði hafa verið sett út og næsta haust er áformað að slátra 700 tonnum. Árið eftir verða þau orðin 3.000 og síðan er stefnt að því að auka framleiðsluna jafnt og þétt.

Norska Fiskeribladet greinir frá þessu og á heimasíðu fyrirtækisins segir að með frásögninni í Fiskeribladet hafi spilin verið lögð á borðið. Áformin hafi nú verið kynnt.

Fyrirtækið er með starfsemi í smábænum Myre. Hugmyndin er að tryggja jafnt framboð yfir árið, en þorskveiðar Norðmanna hafa dreifst til þessa dreifst mjög ójafnt yfir árið. Mikill hamagangur er í allri fiskvinnslu yfir vetrarmánuðina þegar Barentshafsþorskurinn kemur til Noregs en þess á milli getur verið erfitt að anna eftirspurn.

„Hvítfiskútgerðin er hagkvæm nokkra mánuði á ári,“ segir Brynjar Kværnstuen framkvæmdastjóri í viðtali við Fiskeribladet. „Ef okkur tekst að tryggja samsvarandi vinnslu hina sjö til átta mánuði ársins, þá er ég ekki í vafa um að hvítfiskvinnslan mun borga sig.“

Stefnt er að því að skrá fyrirtækið á markað þegar 75.000 tonna framleiðslu verður náð, en til viðbótar er stefnt að því að kaupa 25.000 tonn af villtum þorski.