Ágætur gangur hefur verið í laxaslátrun hjá Búlandstindi á Djúpavogi eftir að hún lagðist mesta hluta síðasta vegna sjúkdóms sem kom upp í eldi Ice Fish Farm í Reyðarfirði í nóvember 2021 og síðar um mitt sumar 2022 í Berufirði. Meðan laxaslátrun lá niðri var unnið að breytingum á laxasláturhúsinu sem miða að auknum afköstum og hámörkun á gæðum framleiðslunnar.
Héldu vinnu allan tímann
Fyrstu níu mánuði ársins 2023 kom enginn lax inn til slátrunar hjá Búlandstindi. Þrátt fyrir það héldu allir starfsmenn vinnunni, en hjá fyrirtækinu starfa um 80 manns og það er stærsta fyrirtækið í Múlaþingi. Um 550 manns búa á Djúpavogi. Byggðakvótinn bjargaði miklu Búlandstindur hefur verið í framkvæmdum sem miða að því að auka afköst og gæði framleiðslunnar og var unnið að þessum breytingum meðan laxaslátrun lá niðri. Gerðar voru breytingar á innmötunar-, blóðgunar- og kælingarkerfi og afköst aukin í að aðskilja slóg frá hráefninu. Einnig voru gerðar breytingar á hreinsivirki sláturhússins. Allt vatn sem kemur frá vinnslunni er síað og sótthreinsað áður en það rennur til sjávar.
Kristján Ingimarsson, gæða- og framleiðslustjóri, segir að jafnframt hafi á þessum tíma verið unnið að reglubundnu viðhaldi auk þess sem unnið var við vinnslu á þorski. Búlandstindur tók á móti um 1.350 tonnum af þorski en hluti af því er byggðakvóti sem úthlutað var til Djúpavogs, sem kom sér auðvitað vel á þessum sérstöku tímum. Hann segir að byggðakvótinn hafi í raun bjargað atvinnulífinu á Djúpavogi meðan á þessu stóð
Einungis 13 mánuði í sjó
Byrjað var að slátra aftur laxi úr kvíum í Fáskrúðsfirði hjá Búlandstindi í september á síðasta ári og að prófa búnaðinn og breytingarnar sem höfðu verið gerðar. Slátrun hófst svo af fullum krafti í byrjun október. Á þessum þremur mánuðum voru unnin um 5 þúsund tonn af laxi. Nú er reglulega verið að setja út seiði í kvíarnar, en sérstaða Ice Fish Farm er að hluti seiðanna er allt að 1 kg að þyngd og eru þau að jafnaði ekki nema þrettán mánuði í sjó. Einnig eru sett út minni seiði og er meðalþyngd seiðanna 300- 400 grömm. Með þessu móti er unnt að lengja slátrunartímann og draga úr álagstoppum.
Stefnt að 150 tonna vinnslugetu á dag
Vinnslugeta Búlandstinds í laxi er um 100 tonn á dag og stendur til að auka hana enn frekar. Miðað við 200 vinnudaga á ári er vinnslugetan 20 þúsund tonn á ári en áform eru uppi um að auka hana í 150 tonn á dag, eða í 30 þúsund tonn á ári, sem myndi skila gróflega áætlað nálægt 30 milljörðum króna í verðmætum.
„Þetta er hágæðavara sem við framleiðum. 13 mánuðir í sjó teljast ekki langur tími þegar heildar eldistími frá hrogni til slátrunar er þrjú ár. Þessu náum við með því að setja út stóru seiðin sem styttir fasann í sjó. Þetta dregur úr líkum á sjúk[1]dómum og umhverfisslysum. Það hefur aldrei fundist lús í eldislax á Austfjörðum, sem má rekja til þess að lítið er af villtum laxi á þessu svæði. Villtur lax er því ekki að bera lús inn í kvíarnar og hún nær sér ekki á strik.“
Nýtt nafn sameinaðs félags
Hráefnið kemur frá Fiskeldi Austfjarða og Löxum fiskeldi, dótturfélögum Ice Fish Farm, sem stunda sjókvíaeldi í Reyðarfirði, Fáskrúðsfirði, Stöðvarfirði og Berufirði. Í gildi eru sextán rekstrarleyfi til sjókvíaeldis á Íslandi með hámarkslífmassa upp á rúmlega 103 þúsund tonn. Fyrirtækin að baki leyfunum eru Arctic Sea Farm, Arnarlax, Háafell, Hábrún og ÍS 47 á Vestfjörðum og Fiskeldi Austfjarða og Laxar fiskeldi á Austfjörðum. Þar af eru leyfi Ice Fish Farm upp 43.800 tonna hámarkslífmassa á Austfjörðum. Áætlað er að Búlandstindur verði hluti af hinu sameinaða félagi Ice Fish Farm og um leið verður tilkynnt nýtt nafn á þessum þremur sameinuðu félögum. Ice Fish Farm er í eigu fjölmargra fjárfesta en þeirra stærstir eru Måsøval í Noregi og íslensku sjávarútvegsfyrirtækin Skinney-Þinganes og Ísfélagið í Vestmannaeyjum. Guðmundur Gíslason, fyrrum forstjóri Ice Fish Farm, er einnig meðal stærri fjárfesta.