Kræklingavinnsla á Íslandi hefur ekki verið dans á rósum og draumar um stórfelldan útflutning hafa ekki gengið eftir. Nesskel í Króksfjarðarnesi einbeitir sér nú að veiðum og vinnslu fyrir innanlandsmarkað. Stefnt er að 100 tonna framleiðslu í ár.

Nesskel fékk leyfi síðastliðið vor til vinnslu og pökkunar á kræklingi. Í dag sendir fyrirtækið skel til Reykjavíkur og víðar og fæst kræklingurinn þar á betri veitingahúsum. Nesskel er í samstarfi við fyrirtækin Icelandic Mussel Company og Arctic Seafood. Skelin sem Nesskel pakkar og selur kemur að mestu úr Hvalfirði og starfa 2 til 3 starfsmenn við vinnslu og pökkun.

Sauðfjárbóndinn og kræklingaræktandinn Bergsveinn Reynisson frá Gróustöðum í Reykhólahreppi stendur að þessari vinnslu. Hann er jafnframt skipstjóri á bátnum Knolla BA sem veiðir kræklinginn. Þeir hafa veitt um 20 tonn af kræklingi í Hvalfirði frá því í haust.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.