Frystitogarinn Þerney RE 1, áður Ilivileq, er nú í sínum öðrum túr og kominn með um 670 tonn af afurðum á um 15 dögum. Í fyrstu löndun skipsins eftir að það komst í eigu Brims komu á land rétt rúmlega 1.000 tonn af afurðum.

Þerney er stærsta bolfiskskip landsins, 81 metri á lengd og 17 metrar á breidd og var smíðað á Spáni árið 2020 fyrir HB Granda. Arctic Prime á Grænlandi gekk inn í smíðasamninginn og var skipið gert út frá Grænlandi þar til núna. Skipstjórar á Þerney eru Árni Gunnólfsson og Arnar Ævarsson.

Árni fór í jómfrúartúrinn undir lok júní. „Það gekk bara mjög vel. Við veiddum yfir 1.000 tonn og vorum samfellt í 23 daga í vinnslu. Við byrjuðum á Fjöllunum og fórum síðan á Sneiðina fyrir sunnan land. Túrinn endaði svo á Vestfjarðamiðum,“ segir Árni.

Hann segir að undanfarin ár hafi verið mikið af gulllaxi og djúpkarfa með en um þetta leyti árs haldi hann sig á grunnsævi. Gulllaxinn var mest heilfrystur.

Árni Gunnólfsson. FF MYND/ÞORGEIR
Árni Gunnólfsson. FF MYND/ÞORGEIR

Fyrsti túrinn á nýju skipi

Arnar Ævarsson skipstjóri var staddur með áhöfn sinni á Vestfjarðamiðum í annarri veiðiferð Þerneyjar RE. Nýlokið var við að hífa og voru um 10 tonn af usa og karfa í trollinu. „Við erum búnir að vera núna í viku hérna á Halanum í vetrarveðri, norðaustan 20 metrum og fjögurra stiga hita. Það er mjög sérstakt að vera í svona veðri í júlí og ágúst. Þetta kemur niður á veiðum og vinnslu en við erum á mjög góðu skipi sem fer vel með áhöfnina,“ segir Arnar.

Þetta er fyrsti túrinn á nýju skipi fyrir flesta í áhöfninni og Arnar segir menn vera að læra inn á það. „Við erum að keyra þetta í gang með blönduðum afla. Við ætlum í grálúðu þegar veðrið fer að lagast. Það verður okkar hlutverk að veiða meðal annars gulllax og grálúðu. Við erum að prófa búnaðinn og höfum gert það viljandi að vera í öllum tegundum.“

Arnar Ævarsson.
Arnar Ævarsson.

Stefnt er að því að Þerney RE landi öðru sinni 22. ágúst. Búið var að veiða um 670 tonn á hálfum mánuði og búast má við að heildaraflinn verði svipaður og í fyrstu lönduninni.