Ef stjórnvöld halda fast við stefnu sína um 20% aflareglu í þorskveiðum næstu fimm árin er allt útlit fyrir að þorskkvóti til aflamarks- og krókaaflamarksbáta verði skertur á næsta fiskveiðiári, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.

Einar K. Guðfinnsson fyrrum sjávarútvegsráðherra lagði fram fyrirspurn til Jóns Bjarnasonar núverandi sjávarútvegsráðherra á Alþingi í síðustu viku þar sem hann benti á þetta. Hann sagði að samkvæmt vísbendingum úr nýafstöðnu togararalli yrði þorskkvótinn 147 þúsund tonn miðað við 20% aflaregluna. Til frádráttar kæmu svo 5.000 tonn vegna strandveiða þannig að eftir væru 142 þúsund tonn til aflamarks- og krókaaflamarksskipa og til línuívilnunar, aflabóta vegna skelfisks og byggðakvóta.

Jón Bjarnason svaraði þessu til að ennþá ættu eftir að koma fram frekari upplýsingar um ástand þorskstofnsins til viðbótar togararallinu ,,en ég hef sterkar og góðar vonir um að við getum haldið okkur við hliðstætt aflamark og heildarveiði þorsks á næsta fiskveiðiári og gildir á þessu fiskiveiðiári. Hins vegar er ljóst að það er ekki tilefni til stóraukningar,” sagði sjávarútvegsráðherrann.

Sjá nánar í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.