Fjölmörg íslensk uppsjávarskip eru nú í ágætri kolmunnaveiði langt suður af Færeyjum. Aðalsteinn Jónsson NK var kominn með 1.350 tonn í fimm holum og átti Ómar Sigurðsson skipstjóri von á því að fylla skipið á næstu sólarhringum en það ber alls nærri 2.300 tonn. Fleiri íslensk skip eru nú á leið á miðin þar sem fyrir er urmull rússneskra og færeyskra skipa.

Af nógu er taka því kolmunnakvótinn á almanaksárinu er tæp 272 þúsund tonn en var á síðasta ári um 150 þúsund tonn. Síldarvinnslan heldur á langstærstum hluta heimildanna, alls 81.200 tonnum en Brim og Eskja rúmum 50 þúsund tonnum hvort.
Aðalsteinn Jónsson SU var búinn að vera þrjá daga í kolmunnaveiði fyrir sunnan Færeyjar þegar Fiskifréttir náðu tali af Ómari á þriðjudag sl. Þeir höfðu komið við í Fuglafirði og náð í hlera og svo stendur til að fylla skipið olíu í Færeyjum áður en haldið var aftur heim í Eskifjörð. Það eru um 400.000 lítrar sem verða teknir og sparast ófáar milljónirnar við það miðað við kaupin eins og þau gerast á eyrinni á Íslandi.
Sól og blíða var á miðunum, sagði Ómar, og ein fimm önnur íslensk skip á svæðinu, þ.e. Beitir, Börkur, Hoffell, Vilhelm Þorsteinsson, Jón Kjartansson. Flest öll önnur íslensk uppsjávarskip eru að búa sig undir fara eða eru á leiðinni á miðin.
800-900 tonn í tveimur holum
„Þetta hefur verið mjög gott að undanförnu. Við erum búnir að ná 800-900 tonnum núna í tveimur holum en vorum bara í kroppi í gær. Fiskurinn mætti þó vera stærri og vonandi breytist það von bráðar. Hérna eru 12-15 rússnesk skip og hellingur af færeyskum og norskum skipum líka.“
Alls hafa verið tekin fimm hol og komin um 1.350 tonn af kolmunna í skipið. Þá vantar enn tæp 1.000 tonn sem Ómar vonast til þess að náist á næstu dögum. Þetta líti ágætlega út núna og aðalgangan er á norðurleið núna. Stímið heim er langt eða um 30 tímar.
Það er stutt á milli vertíða hjá uppsjávarskipunum því velheppnaðri loðnuvertíð er náttúrulega nýlokið þegar kolmunnaveiðin hefst. Ómar segir að það gefist einhver pása í maílok og júní nema þá makríllinn gangi inn í íslensku lögsöguna í fyrra fallinu sem vonandi verði.