„Ég er búin að búa til nýja aðferð til að búa til harðfisk sem er allt öðruvísi en harðfiskur er gerður venjulega hér á landi,“ segir Alda Björk Ólafsdóttir, stofnandi fyrirtækisins Viking Kitchen ehf.

Fyrir skömmu fékk Viking Kitchen tæplega átta milljóna króna styrk úr Fjársjóði Matvælasjóðs til að undirbúa markaðssókn með vörulínuna Krispa Fish Snack í Bretlandi.

„Hingað til hafa þetta bara verið ég og maðurinn minn sem höfum staðið upp fyrir haus, fyrst og fremst við að koma framleiðslunni almennilega í gang,“ segir Alda Björk.

Vinnsla Viking Kitchen er á Hellu, í húsnæði þar sem bæði er fiskverkun og fiskverslun.

Nota ódýrasta hráefnið

„Allur laxinn sem er veiddur hér í Rangárvallasýslu og í kring kemur hingað þar sem við erum með aðstöðu þannig að við fáum alla afskorninga og við gerum harðfisk úr þeim,“ segir Alda Björk. Grunnurinn sé þó þrjár aðaltegundir úr þorski.

Sýnishorn af framleiðslu Viking Kitchen. Mynd/Aðsend
Sýnishorn af framleiðslu Viking Kitchen. Mynd/Aðsend

„Það er þorskur í ostrusósu, þorskur með jalapeno og þorskur með svörtum ólífum og hvítlauk. Villti laxinn er hins vegar í takmörkuðu magni vegna þess að það er ekki hægt að fá mikið af honum,“ segir Alda Björk. Um sé að ræða algjöra nýjung í vinnsluaðferðum.

„Þess vegna get ég notað allt svona hráefni og þú finnur engan bragðmun á þessu eins og ef ég myndi kaupa einhverja fína, flotta ýsu eða þorskhnakka. Ég vil nota hráefni sem annars fer bara í dýrafóður. Það er ódýrasta hráefnið sem til er af hvítum fiski,“ segir Alda Björk, sem segist hafa gert samning við Haga.

Þurfa stærri ofna og mannskap

„Við fengum styrk frá Högum í fyrra. Stefnan er að varan komi út núna í Hagkaupum í lok ágúst eða byrjun september,“ segir Alda Björk. Þótt hráefnið sem notað er sé ódýrt segir Alda Björk vinnsluna krefjandi. Þau sé ekki með stórar vélar sem skeri hráefnið og allt gerist sjálfvirkt heldur sé mikil handavinna í gangi.

„Svo að við getum ekki framleitt gífurlegt magn eins og er. Við þurfum að fá stærri ofna og meiri mannskap. Erum einmitt að vinna í því öllu núna til að komast inn á stærri markað eins og Bretland,“ segir Alda Björk um framtíðarsýnina.

Ætlar sér inn í Wholefoods

Alda Björk kveðst horfa til Bretlands því þar hafi hún búið í 32 ár og byrjað að þróa vöruna þar. Ferlið hafi tekið níu ár.

„Ástæðan fyrir þessu öllu er sú að það er ekki hægt að kaupa harðfisk í Bretlandi. Mér finnst harðfiskur svo góður og hugsaði að það hlyti að vera hægt að búa til harðfisk heima hjá sér. Svo að ég byrjaði að föndra í eldhúsinu og búa til þessa vöru sem hún er í dag,“ lýsir Alda Björk, sem kveðst hafa sambönd í verslunarmiðstöðinni Harrods og á mörgum öðrum stöðum í Bretlandi. „Þeir segja að það verði ekki mikið mál fyrir mig að koma þessu í búðir þar.“

Um er að ræða dýra vöru og Alda segist þess vegna einbeita sér fyrst og fremst að búðum þar sem fólk kaupir lúxusvöru eins og Harrods og Wholefoods.

„Þar eru aðeins mestu toppmatvæli frá öllum heiminum. Ég ætla mér þangað inn, það er alveg bókað mál,“ segir hún ákveðin.

Sjúk í snakk úr bleikju

Til að koma framleiðslunni á næsta stig kveðst Alda Björk hafa fundið ofn í Kína sem hún ætli að panta. „Hann verður kominn kannski eftir þrjá mánuði, tvo ef ég er heppin,“ segir hún.

Alda Björk Ólafsdóttir og Atli Lilliendahl hafa augstað á ofnin frá Kína. Mynd/Aðsend
Alda Björk Ólafsdóttir og Atli Lilliendahl hafa augstað á ofnin frá Kína. Mynd/Aðsend

Þess má geta að fyrir utan villta laxinn framleiði Viking Kitchen úr landeldislaxi og úr bleikju og bleikjuroði. „Ég fæ bleikju sem er í raun ekki nógu hár klassi til að fara á veitingastaði. Það er roðflett og síðan geri ég snakk úr bleikjunni og þurrka og krydda roðið og það kemur alveg æðislega út. Fólk virðist alveg sjúkt í það,“ segir Alda Björk.

Sjúk í snakk úr bleikju

Til að koma framleiðslunni á næsta stig kveðst Alda Björk hafa fundið ofn í Kína sem hún ætli að panta. „Hann verður kominn kannski eftir þrjá mánuði, tvo ef ég er heppin,“ segir hún.

Þess má geta að fyrir utan villta laxinn framleiði Viking Kitchen úr landeldislaxi og úr bleikju og bleikjuroði.

„Ég fæ bleikju sem er í raun ekki nógu hár klassi til að fara á veitingastaði. Það er roðflett og síðan geri ég snakk úr bleikjunni og þurrka og krydda roðið og það kemur alveg æðislega út. Fólk virðist alveg sjúkt í það,“ segir Alda Björk Ólafsdóttir.