Ný gerð skyndibitastaðar sem leggur megináherslu á matreiðslu á norskum eldislaxi var opnuð nýlega í Ósló og uppi eru áætlanir um alls allt að 1.000 slíka veitingastaða um allan heim. Pink Fish heitir fyrirbærið og nái ráðagerðir Norðmannsins Ronny M. Gjøse, framkvæmdastjóra og stofnanda, fram að ganga gæti Pink Fish verið svar Norðmanna við Red Lobster veitingakeðjunni í Bandaríkjunum.

Við opnun fyrsta veitingastaðarins í verslunarmiðstöðinni  Steen & Strøm í Ósló sagði Gjøse að hann leitaði nú fjárfesta til að ná fram metnaðarfullu markmiði sínu. Hann er meðal annars í viðræðum við norsk laxeldisfyrirtæki og bindur vonir við að þau taki þátt í uppbyggingu keðjunnar.

„Á næsta ári opnum við tíu nýja veitingastaði í Noregi undir nafni Pink Fish og á árinu 2019 höslum við okkur völl annars staðar,“ segir Gjøse.

Gjøse hefur borist sterkur liðsauki því þátttakendur í verkefninu eru nú einn þekktasti matreiðslumeistari Noregs, Geir Skeie, sem meðal annars hefur sigrað Bocuse d‘Or matreiðslukeppnina, og fjárfestirinn og skipahönnuðurinn Svein Sandvik.

Norskur eldislax verður uppistaðan á matseðlinum en aðrar tegundir sjávarafurða verða einnig í boði.

Góður matur í skyndi

„Kjörorð okkar er „Good Food Fast“ (Góður matur í skyndi). Notendavænt smáforrit og heimasíða okkar gera viðskiptin snurðulaus og einstaklega einfalt er að forpanta matinn sem viðskiptavinir sækja svo á fyrirfram ákveðnum tíma án þess að þurfa að standa í röð og bíða,“ segir Gjøse.

Hann segir að lítil áhersla hafi fram til þessa verið lögð á fisk sem hráefni í skyndibita. Réttirnir verða matreiddir samkvæmt uppskrift og aðferðin tryggir stöðug gæði og sömu bragðupplifun í hvert sinn.

„Lax er hægt að matreiða á fleiri vegu en að steikja hann eða sjóða og hann er ekki eingöngu hráefni í sushi. Ég er sannfærður um að gera sjávarmeti aðgengilegt með þessum hætti og á verði sem ungt fólk ræður við getum við séð til þess að það neyti heilsusamlegrar fæðu,“ segir matreiðslumeistarinn Geir Skeie.

Á matseðlinum eru laxaborgarar í evrópskri, amerískri og asískri útfærslu, heitar laxasúpur, þar á meðal norræn útfærsla með dilli, fennel og appelsínu, þrír hráir laxaréttir eru í boði með t.a.m. sashimi, chilimarineruðu grænmeti og með eplum, sinnepi og fennel, og þrjár gerðir laxasalats. Verð á réttunum er 119 norskar krónur eða um 1.500 ÍSK. Heimasíða Pink Fish er www.pinkfish.no .