„Þetta er búin að vera skrítin vertíð, finnst okkur,“ segir Margeir Guðmundsson skipstjóri á Þinganesi SF 25.

Unnið um borð í Þinganesi. MYND/MARGEIR GUÐMUNDSSON
Unnið um borð í Þinganesi. MYND/MARGEIR GUÐMUNDSSON

„Tíðarfarið var gott en við vorum vanir að fara út og sækja skammtinn okkar en það hefur þurft að hafa dálítið meira fyrir því núna. Þessir hefðbundnu vertíðarstaðir eins og Selvogsbanki komu ekki af krafti inn í vetur. Fiskurinn var dálítið grunnt megnið af vertíðinni, mikið innar en hann er vanur að vera. Togararnir sem voru dýpra urðu ekki mikið var úti af Selvogsbanka þegar þeir prófuðu þar,“ segir Margeir sem kveðst ekki hafa skýringar á takteinum.

„Hvað veldur veit ég ekki en það var frekar lítið æti í Selvogsbankanum og í Háadýpi og á þessum hefðbundnu slóðum. Við höfum þurft að hafa aðeins meira fyrir þessu en þetta er búið að vera mjög gott. Við finnum okkur alltaf einhvern fisk,“ segir Margeir.

Veiðum verður að sögn Margeirs haldið áfram fram á verslunarmannahelgi. Áhöfnin fái síðan frí í ágúst.

Gera sér glaðan dag

Margeir Guðmundsson.
Margeir Guðmundsson.

„En sjómannahelgin er fram undan og þá fer áhöfnin eitthvert og gerir sér glaðan dag, fær sér að borða og svona. Svo er bara áfram gakk,“ segir Margeir.

Þinganes landar í Þorlákshöfn og áhöfn skipsins er að stórum hluta þaðan og frá Selfossi.

„Við höfum alltaf farið á Nauthól en við ætlum að breyta til og fara á veitingastaðinn Blik Bistro í Mosfellsbæ og verðum þar á föstudagskvöldið,“ segir Margeir. Mökum er boðið með og Margeir segir áhöfnina á Steinunni SF 10 einnig ætla að slást með í för svo um álitlegan hóp verður að ræða.

Matseðillinn liggur þegar fyrir og er í boði útgerðarinnar, Skinneyjar-Þinganess. „Við ætlum að fá tartar í forrétt og síðan verður nautalund að hætti hússins í aðalrétt og svo eitthvað sætt og gott í desert,“ upplýsir Margeir.

Risapartí á Höfn

Miklar hefðir eru í kringum sjómannadaginn fyrir austan hjá Skinney-Þinganesi að sögn Margeirs. Sjómannadagurinn sé sannarlega haldinn í heiðri á Hornafirði.

„Skinney-Þinganes hefur alltaf gert vel við sitt fólk á sjómannadaginn og býður alltaf öllu sínu starfsfólki og mökum á sjómannahóf í íþróttahúsinu,“ segir Margeir sem sjálfur er Hornfirðingur þótt hann búi í dag í Garðabæ.

Aðspurður segir Margeir enga sérstaka dagskrá verða í fögnuði áhafnar Þinganess. Hins vegar sé meira viðhaft á Hornafirði. „Þar eru skemmtiatriði og veisluhöld og dansiball á eftir. Ég hugsa að það verði 300 til 400 manna partí.“

Bjóða fólki að skoða skipið

Daginn eftir kvöldverðinn mun almenningi gefast kostur á að skoða Þinganesið. „Við ætlum að sýna skipið í Þorlákshöfn á laugardaginn fyrir gesti og gangandi,“ segir Margeir. Allir íbúar séu þá velkomnir um borð. Á Hornafirði sé almenningi yfirleitt boðið í siglingu líka. Hann játar því að sumir sem komi um borð séu dálítið undrandi að sjá hvernig þar er umhorfs. „Þessi nýju skip eru náttúrlega flott og vel búin og það er alltaf spennandi að skoða eitthvað nýtt.“