Rækjutogarinn Steffano, áður Pétur Jónsson RE, fékk veiðarfæri í skrúfuna þegar hann var við veiðar í síðasta mánuði og hlaust af nokkurt tjón á skrúfublöðum. Unnið er að viðgerðum í slippnum í Reykjavík sem rekinn er af Vélsmiðju Orms og Víglundar. Stutt er síðan Steffano var í viðhaldsskoðun hjá slippnum, þ.e. í október í fyrra. Skipið er gert út af Reyktal útgerðinni í Eistlandi. Einnig er Vestri II BA núna í söluskoðun í slippnum en báturinn, sem er í eigu Vestra hf. á Patreksfirði, var smíðaður í Noregi árið 1963. Hann hefur ekki verið í útgerð frá því að nýr Vestri leysti hann af hólmi árið 2022.