Fiskistofa verður flutt til Akureyrar en starfsmönnum verður ekki gert að flytja norður eins og til stóð. Fullnaðarsigur að mati starfsmanna fiskistofu. Frá þessu er skýrt á vef RÚV.
Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra boðaði fiskistofustjóra og fulltrúa starfsmanna á sinn fund í dag, þar sem ráðherra afhenti bréf um breytta tilhögun á áformum um flutning höfuðstöðva Fiskistofu.
Í bréfi ráðherra til starfsmanna segir að fiskistofustjóri muni flytjast norður og starfa með starfsmönnum sem þar eru fyrir. Hluti rekstrarsviðs verður áfram á höfuðborgarsvæðinu en aðrir starfsmenn hafa val um að starfa þar eða á Akureyri.
Umboðsmaður Alþingis gerði athugasemdir við flutninginn í lok apríl og hvatti ráðherra til að skýra afstöðu sína fyrir starfsmönnum. Í álitinu gerir umboðsmaður athugasemdir við undirbúning flutningsins og mælist til þess að ráðherrann skýri afstöðu sína fyrir starfsmönnunum.